Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Samstaða á þingi verslunarmanna

Samstaða á þingi verslunarmanna

32. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna telur að meginviðfangsefni komandi kjarasamninga verði að viðhalda þeim kaupmætti sem náðist í Lífskjarasamningnum. Í ályktun um kjaramál sem samþykkt var í dag á þinginu kemur meðal annars fram að “Blikur eru á lofti vegna stríðsátaka í Evrópu og eftirkasta Covid faraldursins sem munu hafa áhrif á efnahag landsins og vinnumarkað í náinni framtíð. Við munum leggja fram sanngjarnar kröfur fyrir hönd okkar félagsfólks þannig að það fái eðlilegan og réttlátan skerf af kökunni. Stjórnvöld og fyrirtækin verða á móti að leggja sitt af mörkum við að vinda ofan af þeirri óheillaþróun að verðbólga éti upp áunninn kaupmátt."

Á þinginu var mikil umræða um húsnæðismál sem litaðist af því neyðarástandi sem þingið telur að séu í húsnæðismálum og samþykkti þingið ályktun í húsnæðismálum þar sem segir meðal annars að "það neyðarástand sem hér hefur skapast í húsnæðismálum verði ekki leyst með öðru en sameiginlegu átaki ríkis, sveitarfélaga og samtaka aðila á vinnumarkaði. Húsnæði er grunnþörf og aðgangur að mannsæmandi húsnæði lykilatriði í því að skapa hér félagslegan stöðugleika og velferð." 

Jafnframt samþykkti þingið ályktun sem snýr að lífeyrissjóðunum þar sem lögð var áhersla á góða stjórnarhætti stjórnenda lífeyrissjóða og skorað á ríkið að afnema þær skerðingar sem ríkisvaldið hefur staðið fyrir á undanförnum árum. 

Hægt er að sjá þessar ályktanir í heild hér á vefnum, auk kynninga frá Ólafi Margeirssyni, hagfræðingi, um verðbólgu og verðþróun, Guðrúnu Johnsen hagfræðingi um lífeyrissjóðina og Hermanni Jónassyni forstjóra Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um ástandið í húsnæðismálum.