Skráning á póstlista

Netfang
31. Þing

Guðbrandur Einarssson hættir sem formaður LÍV

Í kjölfar þess að Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) sleit kjarasamningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara, ákvað Guðbrandur Einarsson að segja af sér sem formaður LÍV nú í morgun, miðvikudaginn 20. mars.

Stjórn LÍV hittist á fundi í dag og skipti því aftur með sér verkum. Nýr formaður LÍV er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og mun hann sitja í embætti formanns LÍV fram að næsta þingi LÍV sem haldið verður dagana 18. – 19. október 2019. Varaformaður LÍV er Kristín María Björnsdóttir, formaður deildar VR á Austurlandi.

 

VS samþykkir sameiningu við VR

Félagsmenn Verslunarmannafélags Suðurnesja samþykktu sameiningu við VR í rafrænni atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi miðvikudaginn 13. mars.
Á kjörskrá voru 1.213 og alls greiddu 315 atkvæði eða 25,97%.
Niðurstaðan var sú að 82,52% félagsmanna samþykktu sameiningu en 17,14% voru á móti. Til að sameiningin yrði samþykkt þurfti samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna VS. 

VS mun sameinast undir nafni og kt. VR frá og með 1. apríl 2019 að því gefnu að sameining verði samþykkt af hálfu VR á aðalfundi félagsins 27. mars n.k.

Félagsmenn VR samþykkja verkfallsboðun

Rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VR um verkfallsboðun, í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði, lauk á hádegi 12. mars.

Á kjörskrá voru 959 félagsmenn VR og alls greiddu 578 þeirra atkvæði.
52,25% (302 atkvæði) samþykktu verkfallsaðgerðir en 45,33% (262 atkvæði) voru á móti. 2,42% (14 atkvæði) tóku ekki afstöðu.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. Réttlætistilfinningu félagsmanna er misboðið en verkfallsátök séu grafalvarlegur hlutur. Þetta er ákall um að nú verði að setja fullan kraft í að klára samningaviðræður, annað væri ábyrgðarleysi.

Að öllu óbreyttu munu félagsmenn VR í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði leggja niður störf þann 22. mars nk.

Fréttaveita LÍV