Guðbrandur Einarssson hættir sem formaður LÍV

Í kjölfar þess að Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) sleit kjarasamningaviðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins hjá ríkissáttasemjara, ákvað Guðbrandur Einarsson að segja af sér sem formaður LÍV nú í morgun, miðvikudaginn 20. mars.

Stjórn LÍV hittist á fundi í dag og skipti því aftur með sér verkum. Nýr formaður LÍV er Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og mun hann sitja í embætti formanns LÍV fram að næsta þingi LÍV sem haldið verður dagana 18. – 19. október 2019. Varaformaður LÍV er Kristín María Björnsdóttir, formaður deildar VR á Austurlandi.

 

Félagsmenn VR samþykkja verkfallsboðun

Rafrænni atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VR um verkfallsboðun, í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði, lauk á hádegi 12. mars.

Á kjörskrá voru 959 félagsmenn VR og alls greiddu 578 þeirra atkvæði.
52,25% (302 atkvæði) samþykktu verkfallsaðgerðir en 45,33% (262 atkvæði) voru á móti. 2,42% (14 atkvæði) tóku ekki afstöðu.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir niðurstöðuna ekki koma sér á óvart. Réttlætistilfinningu félagsmanna er misboðið en verkfallsátök séu grafalvarlegur hlutur. Þetta er ákall um að nú verði að setja fullan kraft í að klára samningaviðræður, annað væri ábyrgðarleysi.

Að öllu óbreyttu munu félagsmenn VR í hópbifreiðafyrirtækjum á félagssvæði VR og í gistiþjónustu á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði leggja niður störf þann 22. mars nk.

VS samþykkir sameiningu við VR

Félagsmenn Verslunarmannafélags Suðurnesja samþykktu sameiningu við VR í rafrænni atkvæðagreiðslu sem lauk á hádegi miðvikudaginn 13. mars.
Á kjörskrá voru 1.213 og alls greiddu 315 atkvæði eða 25,97%.
Niðurstaðan var sú að 82,52% félagsmanna samþykktu sameiningu en 17,14% voru á móti. Til að sameiningin yrði samþykkt þurfti samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða fullgildra félagsmanna VS. 

VS mun sameinast undir nafni og kt. VR frá og með 1. apríl 2019 að því gefnu að sameining verði samþykkt af hálfu VR á aðalfundi félagsins 27. mars n.k.

Vísun kjaradeilu

22. febrúar 2019.  

Landssamband íslenskra verslunarmanna (LÍV) hefur í samráði við þau aðildarfélög sín sem sambandið hefur samningsumboð fyrir, tekið ákvörðun um að vísa kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins til Ríkissáttasemjara.

Viðræður milli aðila hafa staðið yfir frá því fyrir áramót, án þess að þær hafi skilað viðunandi niðurstöðu.  Því er talið rétt að óska eftir aðkomu ríkissáttasemjara að deilunni á þessu stigi máls.