Nýr glæsilegur vefur opnaður á þingi LÍV

Áformað er að nota vefinn með virkum hætti í þeirri umræðu sem er að fara í gang um skipulag sambandsins. Á þinginu eru reifaðar nokkrar hugmyndir sem hafa þegar komið fram og verða kynntar á vefnum innan tíðar. Ætlunin er að umræða fari fram um þær á vefnum og í félögunum um landið. Í framhaldi af þeirri umræðu mun framkvæmdastjórn sambandsins vinna úr þeim og leggja fram tillögu snemma á næsta ári. Hún verður síðan rædd með sama hætti og ætlunin er að afgreiða tillögu um skipulag LÍV á framhaldsþingi sem haldið verður á Akureyri í byrjun maí.

Um 90 fulltrúar á þingi LÍV

Fyrir þinginu liggja mörg mikilvæg mál. Mesta fyrirferð hefur umræða um skipulagsmál sambandsins, en ætlunin er að afgreiða þau á framhaldsþingi í maí á næsta ári.

Páll of Úlfhildur

Auk umræðu um skipulagsmálin fer fram ítarleg yfirferð um kjara- og efnahagsmál. Framsögu í þeim málaflokki hafa Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ og Gunnar Páll Pálsson, forstöðumaður hagdeildar Verzlunarmannafélags Reykjavíkur.

 

Þingi LÍV frestað

Á fjórða tímanum í dag var þingi LÍV frestað þar til í maí á næsta ári. Tillaga þess efnis hafði verið samþykkt á þinginu í gær. Á tímanum fram að framhaldsþinginu er áformað að vinna úr þeim hugmyndum að skipulagi og fyrirkomulagi starfsemi sem kynntar voru í ítarlegri framsöguræðu formanns LÍV, Ingibjargar R. Guðmundsdóttur í gær. Framkvæmdastjórn sambandsins var falið að leggja fram tillögu á grundvelli umræðu í laga- og skipulagsnefnd á þinginu. Tillaga framkvæmdastjórnarinnar verður síðan rædd úti í aðildarfélögunum og á nýjum vef LÍV.

Yfirgripsmikil umræða um skipulag og starfsemi LÍV

Ingibjörg kynnti sex meginhugmyndir sem þegar hafa komið fram um skipulag landssambandsins. Þær fela í sér mismunandi miklar breytingar frá því sem nú er. Hún lagði höfuðáherslu á að sú leið sem yrði valin, yrði að byggjast á því að félagsmennirnir úti um landið fengju sem mesta og sambærilega þjónustu.

Í framhaldi af umræðum hér á þinginu er ætlunin að taka þær til umfjöllunar í félögunum. Nýr vefur verði nýttur í því sambandi. Snemma á næsta ári er síðan áformað að framkvæmdastjórn sambandsins leggi fram tillögu, sem unnin verði upp úr umræðunni. Sú tillaga verði í framhaldinu rædd áfram með sama hætti, í félögunum og á vefnum og tekin verði ákvörðun um framtíðarskipulag LÍV á framhaldsþinginu sem haldið verður 3. og 4. maí á Akureyri.