Þing 2002
23. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna
Tuttugasta og þriðja þingi Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var framhaldið á Akureyri, dagana 3.-4. maí 2002, en þingi sambandsins var frestað þann 27. október sl. Fyrir framhaldsþinginu lágu allmörg mál, en fyrirferðarmest var umfjöllun um tillögu framkvæmdastjórnar LÍV um breytingar á rekstri og starfsemi, auk lagabreytinga.
Talsverðar breytingar voru gerðar á lögum sambandsins. Framvegis verða haldin þing árlega, í stað annars hvers árs eins og áður. Fækkað var í stjórn úr 21 fulltrúa í 11. Helmingur stjórnarmanna skal kosinn á þingi ár hvert, nema formaður, sem er kosinn til tveggja ára. Í fyrsta sinn er helmingur stjórnar kosinn til tveggja ára.
Þingið samþykkti að gera umfangsmiklar breytingar á rekstri sambandsins. Í þeim felst m.a. að um sameiginlegan rekstur á ýmsum sviðum verður að ræða og nánara samstarf félaga en áður hefur verið. Megintilgangurinn með breytingunum, er að auka samvinnu og samstöðu aðildarfélaganna, fjölga samstarfsverkefnum, tryggja aukið samstarf við undirbúning og gerð kjarasamninga, styrkja þátttökuna í Alþýðusambandinu og í erlendu samstarfi og nýta betur starfsfólk og fjármuni. Valdssvið þings, framkvæmdastjórnar og aðildarfélaga haldast aftur á móti óbreytt.
Gert er ráð fyrir því að gerður verði samningur við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur um rekstur, til ársloka 2004.
Á þinginu var samþykkt ályktun um kjara- og efnahagsmál, þar sem lýst er ánægju með þann árangur sem náðst hefur í verðlagsmálum og þætti ASÍ í aðgerðum gegn verðbólgu.
Þingið leggur áherslu á að forsenda þess að kaupmáttur launafólks verði tryggður, er að gætt verði áframhaldandi aðhalds í verðlagsmálum, verðbólgu verði haldið í skefjun og að vextir verði lækkaðir enn frekar.
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður sambandsins til næstu tveggja ára. Aðalmenn í framkvæmdastjórn til tveggja ára voru kjörin þau Gunnar Páll Pálsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Benedikt Vilhjálmsson, Kristín M. Björnsdóttir og Sólveig Haraldsdóttir. Til eins árs voru kjörin þau Valur M. Valtýsson, Guðrún Erlingsdóttir, Grétar Hannesson, Guðbrandur Einarsson og Guðmundur B. Ólafsson. Eftirtalin voru kjörin varamenn til eins árs: Gunnar Kristmundsson, Júnía Þorkelsdóttir, Stefanía Magnúsdóttir, Finnur Magnússon, Edda Kjartansdóttir, Hjörtur Geirmundsson, Páll H. Jónsson, Ágúst Óskarsson, Gunnar Böðvarsson og Bjarndís Lárusdóttir.
Tillaga um starfsemi
23. þing LÍV á Akureyri 3.- 4. maí 2002.
Tillaga framkvæmdastjórnar LÍV um breytingar á starfsemi sambandsins.
Greinargerð:
Eins og fram kom á fyrri hluta 23. þings LÍV í október s.l. hafa umræður um skipulag og starfsemi sambandsins staðið yfir í mörg ár og tekið mikinn þrótt frá öðru starfi. Aðalástæðan er mismunandi aðstæður aðildarfélaganna, sem hafa leitt af sér að félögin utan Reykjavíkur hafa haft áhuga á að fara í meira samstarf undir merkjum LÍV en VR hefur ekki verið tilbúið til að bæta í greiðslur til sambandsins, þar sem það er sjálft með rekstur á flestum þeim sviðum, sem um er að ræða.
Það kom fram bæði á þinginu og eftir það að mörgum finnst skipulag systur-sambandanna í Danmörku og Noregi mjög áhugavert og gefa mikla möguleika en það kom einnig fram að ýmsum fannst mjög stórt skref að sameina félögin í landsfélag. Það bar aðeins á áhyggjum af því hvernig slíkt samstarf myndi ganga í ljósi átaka síðustu ára.
Það skiptir öllu máli að við finnum lausn, sem sátt næst um og það er nauðsynlegt að við gefum okkur þann tíma sem við þurfum. Framkvæmdastjórn ákvað því eftir að hafa farið ítarlega yfir málið að leggja til við seinni hluta þingsins að gera umfangsmiklar breytingar á rekstri sambandsins en geyma að sinni frekari umræðu um landsfélag og sameiningu sjóða aðildarfélaganna. Með því kæmi reynsla á náið samstarf félaganna um sameiginlegan rekstur, sem myndi síðar auðvelda þeim að taka afstöðu til þess hvernig þau vilji skipuleggja sig og samstarfið á landsvísu.
Tillagan snertir eingöngu rekstur LÍV. Það er ekki verið að breyta valdsviði þings og framkvæmdastjórnar eða skipulagi aðildarfélaganna. Áhættan er því engin, þar sem hægt væri að breyta aftur til fyrra horfs, ef svo ólíklega vildi til að þetta fyrirkomulag reyndist illa. Það felast mikil tækifæri í þessari breytingu og það eina, sem myndi tapast væri leiguhúsnæðið í Fákafeni 11.
Markmið tillögunnar er að:
auka samvinnu og samstöðu aðildarfélaga LÍV
fjölga samstarfsverkefnum
tryggja sameiginlega aðkomu að kjarasamningum og undirbúningi þeirra
styrkja aðkomu verslunarmanna að ASÍ, erlenda samstarfinu o.fl. með því að fjalla sameiginlega um afstöðu
nýta betur fjármagn og starfsfólk
fá betri samstarfsvettvang
láta reyna á nánara samstarf félaganna.
Tillaga:
Skrifstofa LÍV flytji fyrir 1. október 2002 í húsnæði hjá VR á 8. hæð í Húsi verslunarinnar.
Þingið feli VR rekstur LÍV frá 1. október 2002 til 31. desember 2004 og starfsmenn félagsins vinni verkefnin með sambærilegum verkefnum fyrir VR.
Árlegur skattur til LÍV renni til VR til að standa straum af kostnaði við rekstur sambandsins fyrir utan 500.000 kr. á ári, sem lagðar verði til hliðar og bætt við peningalegar eignir LÍV. VR sjái um greiðslur.
Núverandi starfsmenn LÍV verði starfsmenn VR. Gengið er út frá því að Ingibjörg R. Guðmundsdóttir verði áfram formaður LÍV en taki auk þess við stöðu forstöðumanns nýs sviðs hjá VR, sem hafi m.a. forræði yfir samskiptum LÍV og VR við ASÍ og önnur samtök svo og erlendum samskiptum LÍV og VR. Ástríður S. Valbjörnsdóttir sinni einkum verkefnum fyrir LÍV og Starfsmenntasjóðinn.
Peningalegar eignir LÍV verði geymdar og ávaxtaðar á hagkvæmasta máta. Framkvæmdastjórn eða þing geti þó ákveðið að nýta hluta þeirra til sérstakra verkefna.
Lausamunir LÍV verði nýttir, seldir eða geymdir eftir því, sem við á.
Reikningar LÍV verði aðskildir frá reikningum VR.
Verði þessi tillaga samþykkt er samkomulag um að:
Símvarsla verði í sérstakt símanúmer LÍV frá kl. 8:30 til 16:30 virka daga.
Túlkun kjarasamninga og lögfræðiþjónusta verði með svipuðum hætti og verið hefur.
Aðkoma að undirbúningi og gerð kjarasamninga verði sameiginleg og hvoru tveggja kynnt úti á landi.
Vef LÍV verði haldið við og tölvusérfræðingar VR aðstoði vegna sameiginlegra verkefna.
Námskeið og fræðslufundir verði haldin víða um land t.d. um launaviðtöl.
Boðið verði upp á sameiginlegar launakannanir.
Sameiginleg útgáfa verði skoðuð.
Reynt verði að fela einu eða fleiru aðildarfélagi einhver verkefni gegn greiðslu frá VR.
Auk formanns verði framkvæmdastjórnin skipuð 5 fulltrúum VR og 5 fulltrúum annarra félaga í stað 6 fulltrúa VR og 4 fulltrúa annarra félaga eins og nú er. Sama skipting varamanna.
Aðeins er verið að breyta rekstri. Þing og framkvæmdastjórn tæki áfram allar ákvarðanir fyrir LÍV og framkvæmdastjórnin starfaði með óbreyttum hætti. Stefnt er að sama fjölda framkvæmdastjórnarfunda og nú er og að ferðakostnaður verði greiddur eins og verið hefur.
Ályktun um kjaramál
Álit kjara- og efnahagsmálanefndar
Þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna haldið á Akureyri þann 3. og 4. maí 2002 lýsir ánægju með þann árangur sem náðst hefur í verðlagsmálum og þætti ASÍ í aðgerðum gegn verðbólgu.
Þingið leggur áherslu á að forsenda þess að kaupmáttur launafólks verði tryggður, er að gætt verði áframhaldandi aðhalds í verðlagsmálum, verðbólgu verði haldið í skefjun og að vextir verði lækkaðir enn frekar.
Að því tilefni vill þingið vekja athygli á að næsta endurskoðun kjarasamninga fer fram í febrúar 2003.
Tillaga v/reksturs
23. þing Landssambands ísl. verzlunarmanna haldið á Akureyri 3. – 4. maí 2002 felur framkvæmdastjórn sambandsins að ganga frá samningi við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur um rekstur LÍV frá 1. október 2002 til 31. desember 2004.
Tillaga um skatt
Framkvæmdastjórn LÍV leggur til við 23. þing LÍV að skattur til sambandsins fyrir árið 2002 verði kr. 820 á hvern reiknaðan félagsmann og að sambandið greiði ferða- og dvalarkostnað samninganefndar LÍV með sama hætti og greitt er vegna framkvæmdastjórnar.
Tillaga um gagnkvæma réttindaávinnslu í starfsmenntasjóðum
23 þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna, haldið á Akureyri 3. – 4. maí 2002, telur mikla nauðsyn á að starfsmenntasjóðir á vegum verkalýðshreyfingarinnar vinni betur saman, m.a. þannig að starfandi félagsmenn eigi ávallt virk réttindi í sjóðunum.
Þingið beinir því til stjórnar Starfsmenntasjóðs verslunar- og skrifstofufólks að skoða hvaða möguleikar eru hentugastir til að ná fram þessum markmiðum.
Tillaga um sameiginlegan gagnagrunn
Þing LÍV haldið á Akureyri 3. – 4. maí 2002 samþykkir að fela stjórn LÍV að hefja undirbúning að gerð sameiginlegs gagnagrunns fyrir aðildarfélög LÍV.
Kjörbréf þingfulltrúa
Samþykkt var að fresta 23. þingi LÍV þann 27. október 2001 að loknum nefndakosningum, framsögum og umræðum um skipulag og starfsemi LÍV, kjara- og efnahagsmál, skýrslu stjórnar, skýrslu félaga og afgreiðslu reikninga sambandsins til föstudagsins 3. maí 2002. Seinni hluti þingsins verður haldinn á Akureyri dagana 3. - 4. maí 2002.
Þau kjörbréf, sem samþykkt eru á fyrri hluta þingsins munu einnig gilda á framhaldsþinginu, þó með þeim afbrigðum að forfallist aðalmaður eða hættir í félaginu fyrir setningu framhaldsþingsins, er félaginu heimilt að kalla til varamann.
Sama regla gildir, ef varamaður situr upphafsþingið en forfallast eða hættir í félaginu fyrir setningu framhaldsþingsins og er félaginu þá heimilt að aðalmaður taki sæti á seinni hlutanum. Forfallist bæði aðal- og varamaður er félaginu heimilt að kjósa nýjan fulltrúa á framhaldsþingið.