Saga Landssambands íslenzkra verzlunarmanna
Þann 2. júní 2011 voru liðin 55 ár frá stofnun Landssambands íslenzkra verzlunarmanna. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, undir forystu þáverandi formanns félagsins Guðjóns Einarssonar, átti frumkvæði að stofnun LÍV. Guðjón varpaði hugmyndinni fyrst fram í ávarpi er hann flutti á frídegi verslunarmanna laust eftir 1950 og nokkru síðar var skipuð fimm manna undirbúningsnefnd innan VR sem vann að málinu um nokkurra ára skeið. Þegar Sverrir Hermannsson var ráðinn starfsmaður VR árið 1956 var hafist handa af fullum krafti við undirbúning og var stofnþing LÍV boðað 1. og 2. júní 1957 í húsakynnum VR, Vonarstræti 4.
Vikurnar fyrir stofnþingið háði VR sína fyrstu umtalsverðu kjarabaráttu og hafði boðað verkfall frá kl. 12 á miðnætti aðfararnótt 3. júní. Samningar náðust hins vegar að morgni 2. júní og voru samþykktir á almennum fundi sem haldinn var í Iðnó þann sama dag. Samningarnir brutu blað í sögu VR og voru m.a. þeir fyrstu sem félagið gerði við Vinnuveitendasamband Íslands. Dagurinn 2. júní er því talinn merkisdagur í sögu samtaka verslunar- og skrifstofufólks á Íslandi.
Sex félög verslunar- og skrifstofufólks stóðu að stofnun LÍV. Það voru félögin í Reykjavík, Hafnarfirði, Siglufirði, Borgarnesi, Rangárvallasýslu og Neskaupstað. Á þessum tíma var talið ósamræmanlegt að vera bæði aðili að ASÍ og LÍV. Félögin í Rangárvallasýslu, á Selfossi og á Akureyri voru öll í ASÍ og varð því nokkur dráttur á því að þau yrðu fullgildir félagar í LÍV, þó hluti þeirra hefði fylgst með frá upphafi. Þar að auki voru vinnuveitendur á Neskaupstað ennþá inni í félaginu og varð því að vísa því úr sambandinu. Ekki er vitað nákvæmlega um félagsmannafjölda í stofnfélögum LÍV en hann er talinn hafa verið um 1.200 manns.
Sverrir Hermannsson var kosinn fyrsti formaður sambandsins og Ásgeir Hallsson, Björn Þórhallsson, Gunnlaugur J. Briem og Reynir Eyjólfsson í framkvæmdastjórn.
Baráttan um aðild að ASÍ
Aðalverkefni hinnar nýju stjórnar LÍV var að gangast fyrir stofnun verslunarmannafélaga víða um land og greiða fyrir inngöngu slíkra félaga í sambandið. LÍV óx fljótlega fiskur um hrygg, annars vegar vegna stofnunar nýrra félaga og hins vegar fyrir geysilega eflingu Verzlunarmannafélags Reykjavíkur. Það reyndist hins vegar þrautin þyngri fyrir samtök verslunarfólks að ná fram rétti sínum innan Alþýðusambands Íslands. VR hafði reynt að ganga í ASÍ en verið synjað og árið 1958 skoraði félagið á stjórn LÍV að sækja um aðild. Skipuð var þriggja manna nefnd, sem komst að þeirri niðurstöðu eftir viðræður við forystumenn ASÍ, að vegna viðkvæmrar umræðu um skipulagsmál ASÍ væri ekki ráðlegt að sækja um að svo stöddu.
Á 2. þingi LÍV árið 1959 var samþykkt að sækja um inngöngu í ASÍ og var forsvarsmaður tillögunnar Guðmundur H. Garðarsson, þáverandi formaður VR. Það var gert en á þingi ASÍ árið 1960 var LÍV synjað um inngöngu einkum vegna umræðu um skipulagsmál ASÍ sem sögð var á viðkvæmu stigi.
Árið 1955 var VR orðið hreint launþegafélag og þegar LÍV sendi inntökubeiðni sína árið 1960 lék ekki nokkur vafi þar á. Því töldu verslunarmenn sig uppfylla öll skilyrði miðstjórnar ASÍ fyrir inngöngu. En um þetta urðu harðar deilur. Hannibal Valdimarsson var forseti ASÍ á þessum árum, Eðvarð Sigurðsson var miðstjórnarmaður og Snorri Jónsson framkvæmdastjóri. Þetta voru valdamestu foringjar ASÍ á þeim tíma. Dagblöð fylgdust náið með framvindu mála á ASÍ þinginu og birtu jafnvel orðrétta ræðubúta þaðan. Morgunblaðið lét ekki sitt eftir liggja og birti eftirfarandi frétt frá þinghaldinu þann 16. nóvember: ,,Framsóknarmenn og kommúnistar á ASÍ þingi felldu í gær inntökubeiðni Landssambands íslenzkra verzlunarmanna í ASÍ. Harðar umræður um inntökubeiðnina stóðu allan daginn í gær og kom þar glöggt fram, að LÍV átti fullan lagalegan rétt á inntöku í ASÍ. Benti Hermann Guðmundsson m.a. á það, að ASÍ hefði þegar viðurkennt rétt verslunarfélaga til aðildar að sambandinu, en fjögur verslunarmannafélög eru nú innan Alþýðusambandsins. Hannibal Valdimarsson og Eðvarð Sigurðsson játuðu í ræðum sínum, að inntökubeiðninni væri hafnað af stjórnmálalegum ástæðum. Sagði Eðvarð, að verslunarmenn væru viljalaus hjú kaupmanna og heildsala, en Hannibal sagði, að inntökubeiðni LÍV væri byggð á pólitískri togstreitu." Líklegt er talið að sósíalistar og framsóknarmenn, sem mynduðu meirihluta í stjórn ASÍ, hafi óttast að missa forræðið innan ASÍ ef jafnfjölmennur hópur og LÍV fengi aðild að ASÍ, en sjálfstæðismenn voru fjölmennir í stjórn LÍV.
Stjórn LÍV ákvað að sækja málið að lögum og kærði synjun ASÍ þingsins til Félagsdóms og krafðist þess að því væri skylt að veita LÍV inngöngu með fullum og óskertum félagsréttindum. Hinn 12. nóvember 1962 kvað Félagsdómur upp þann úrskurð að ASÍ væri skylt að veita LÍV inngöngu. LÍV er nú annað stærsta sambandið innan ASÍ á eftir Starfsgreinasambandinu.
Viðurkenndur samningsaðili
Á árunum 1958 og 1959 var farið að kanna möguleika á inngöngu LÍV í Norræna verslunarmannasambandið. Formenn LÍV og VR fóru til Svíþjóðar í febrúar árið 1960 og hittu að máli stjórn NS. Stjórn NS ákvað að LÍV skyldi verða fullgildur félagi í samtökunum frá 1. janúar 1960. Sú viðurkenning sem í inntökunni fólst hafði gífurlega þýðingu í baráttu LÍV fyrir inngöngu í ASÍ. Hin grónu samtök verkalýðs á hinum Norðurlöndum höfðu með þessu metið LÍV fullgilt samband launþega eftir að hafa gert ítarlega könnun á eðli samtaka LÍV og tilgangi. NS fylgdist vandlega með öllum framgangi máls LÍV í ASÍ-málinu og var það talið hafa gefið LÍV ómetanlegan styrk. Stjórn LÍV hafði lengi vel íhugað inngöngu í FIET, alþjóðasamtök verslunarmanna, og af því varð loks á árinu 1970.
Lífeyrissjóður verslunarmanna tók til starfa árið 1956. Sjóðfélagar voru í fyrstu einvörðungu úr Reykjavík en sjóðsstjórn hefur samkvæmt reglugerð verið frá öndverðu heimilt að veita félögum annarra verslunarmannafélaga aðild og hafa ýmsir nýtt sér þessa heimild. Verslunarmenn fengu aðild að atvinnuleysistryggingum 1. janúar 1967, en þeir höfðu orðið að velja á milli hennar og lífeyrissjóðsins 1956.
LÍV varð viðurkenndur samningsaðili fyrir öll aðildarfélög sín á árunum 1960-1964. Sambandið hefur síðan oftsinnis annast samningagerð fyrir þau, einkum fyrir hin fámennari. Fjölmennari félög hafa á hinn bóginn oft samið sjálf við atvinnurekendur, einkum VR. Til fyrstu vinnustöðvunar LÍV kom hinn 10. desember 1963 og stóð hún í fjóra daga. Málsaðilar sömdu um nýja flokkaskipan og aðildarskyldu verslunarmanna að verslunarmannafélögum, en flestum öðrum kjaraatriðum var vísað til gerðardóms og gaf þetta góða raun. Kjaramál og menntamál hafa verið meginviðfangsefni LÍV sem stéttarfélagasambands, auk vaxandi áherslu á alþjóðlegt samstarf í minnkandi heimi.
Stofnun deilda
Kjaramálin voru helsta viðfangsefni LÍV á árunum 1965-1972 og mótaðist árangur mikið af ástandinu í efnahagsmálum. Annað helsta viðfangsefnið voru fræðslumál og gerðar voru samþykktir um fræðslumál á öllum þingum LÍV á því tímabili.
Árið 1973 voru aðildarfélög LÍV 21 talsins og félagsmenn þeirra samtals 6.543, en árið 1989 voru þau orðin 25 með samtals 14.053 félagsmönnum. Landssambandið hafði frá öndverðu stefnt að því að verslunarmenn hvar sem væri á landinu ættu aðild að verslunarmannafélagi. Þetta markmið hafði ekki náðst árið 1989, sumir verslunarstaðir voru of fámennir til að starfsfólk þar kysi að stofna sérstakt félag. LÍV reyndi að bæta úr þessu með tvennum hætti, stækkun félagssvæða starfandi verslunarmannafélaga og með því að fá stofnaðar deildir verslunarmanna innan verkalýðsfélaga. Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri stækkaði félagssvæði sitt um 1970 og tóku þá verslunarmenn á öðrum þéttbýlisstöðum við Eyjafjörð að ganga í félagið. Stofnun deilda innan verkalýðsfélaga fyrir verslunarmenn hófst á Snæfellsnesi og í Dölum árið 1977, en síðan brugðu fleiri á það ráð.
Óeigingjarnt starf
Samtök launafólks byggja á þreki og áhuga félagsmanna sinna. Þúsundir félaga komu að því að skapa þau samtök verslunarmanna sem við þekkjum. Án framlags hvers og eins þeirra hefði ekki náðst sá árangur sem verslunarmenn njóta í dag.
Á árunum 1965 til 1972 ákvað stjórn LÍV að sæma gullmerki þá félaga sem sambandið taldi verslunarmenn standa í sérstakri þakkarskuld við vegna óeigingjarnra starfa. Fyrstur manna til að hljóta gullmerki LÍV var Gunnlaugur J. Briem, varaformaður sambandsins. Á þingi sambandsins 1972 var Guðjón Einarsson, fyrrverandi formaður VR, sæmdur merkinu á þinginu 1972. Þar var einnig samþykkt að sæma Sverri Hermannsson gullmerki en hann lét þá af störfum fyrir LÍV.
Frá 1972 lagðist veiting gullmerkja af allt þar til á þingi LÍV árið 1995 þegar Böðvar Pétursson, stjórnarmaður í VR og LÍV til fjölda ára, einn reyndasti baráttumaður verslunarmanna áratugum saman, var sæmdur gullmerki LÍV fyrir störf sín.
Saga samstöðu og ágreinings
Gjörðabækur LÍV sýna að ýmsum fulltrúum verslunarmannafélaga utan Reykjavíkur hefur á stundum þótt VR vera full aðsópsmikið innan LÍV. Á 9. áratugnum ákváðu nokkur félög verslunarmanna úti á landi að stofna landsbyggðarsamtök til að vinna sérstaklega að kjaramálum verslunarfólks úti um land enda mat stofnenda að kjörin væru lakari þar en á höfuðborgarsvæðinu. Skiptar skoðanir voru þó um tilgang samtakanna og þegar á reyndi í kjarasamningum stóðu verslunarmenn saman sem ein heild. Landsbyggðarsamtökin hafa ekki starfað frá árinu 1989.
Á árunum 1973 til 1996 greip LÍV greip fjórum sinnum til verkfallsvopnsins, árin 1974, 1976, 1982 og 1988. Árið 1976 stóð verkfall verslunarmanna yfir í níu virka daga.
Einhver hörðustu verkfallsátök verslunarmanna frá upphafi urðu vorið 1988 en þau endurspegluðu jafnframt samstöðu þeirra. Verslunarmenn lögðu upp í verkfall til að fylgja eftir kröfu um 42.000 króna lágmarkslaun. Tilraunir til verkfallsbrota voru margar og víða lentu verkfallsverðir í kröppum dansi. Í flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli máttu margir verkfallsverðir sæta ofbeldi. Skörð voru höggvin í raðir atvinnurekenda þegar um 60 fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu samninga við VR þar sem gengið var að helstu kröfum verslunarmanna.
Í lok apríl setti sáttasemjari fram miðlunartillögu sem var felld af flestum félögum verslunarmanna utan VR þar sem tillagan skoðaðist samþykkt vegna ónógrar þátttöku. Félagar í VR stóðu áfram þétt við bak þeirra sem héldu áfram verkfalli og hétu þeim fullum stuðningi. Tveggja vikna verkfalli 13 félaga LÍV lauk loks 4. maí þegar landssambandið undirritaði nýjan heildarkjarasamning. 31. maí náðist svo samkomulag um að samræma áður gerða samninga þessum nýja samningi LÍV.
Áhrif LÍV innan ASÍ
Þrátt fyrir deilurnar um inngöngu LÍV í Alþýðusambandið hefur samstarfið verið gott síðastliðna áratugi og verslunarmenn hafa sett mark sitt á íslenska verkalýðshreyfingu. Forystumenn verslunarmanna hafa verið áberandi í forystusveit hreyfingarinnar enda er samband verslunarmanna hið næst stærsta innan ASÍ. Sem dæmi má nefna að Björn Þórhallsson, fyrrverandi formaður LÍV var jafnframt varaforseti ASÍ.
Verslunarmenn urðu fyrstir til að kjósa konu sem formann landssambands innan ASÍ þegar þeir völdu Ingibjörgu R. Guðmundsdóttur sem formann LÍV árið 1989. Hún var kosin varaforseti Alþýðusambandsins frá árinu 1992-2000 og aftur 2003. Ingibjörg gengdi starfi formanns LÍV þar til hún lést árið 2010.
Stefanía Magnúsdóttir, varaformaður LÍV tók við sem formaður frá andláti Ingibjargar fram að þingi 2011 þegar Stefán Einarsson var kosinn. Hann lét af störfum í maí 2013. Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, varaformaður tók við sem formaður fram að þingi í október 2013 þegar Guðbrandur Einarsson var kosinn formaður sambandsins. Guðbrandur var jafnframt formaður Verslunarmannafélags Suðurnesja. Hann sagði af sér formennsku LÍV í mars 2019. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR tók við formannsembætti LÍV þar til hann var kosinn formaður á þingi sambandsins 19. október 2019.
Heimild: Óprentað handrit Lýðs Björnssonar að sögu LÍV