Lög LÍV
I. kafli
Heiti og markmið
1. gr.
Sambandið heitir Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (skammstafað LÍV).
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr.
Sambandið er heildarsamtök starfsfólks í verslunar-, skrifstofu- og þjónustugreinum.
3. gr.
Markmið sambandsins er:
Að vera sameiginlegur vettvangur aðildarfélaganna til að vinna að bættum kjörum og öðrum hagsmunamálum félagsmanna.
Að styðja og þjónusta aðildarfélögin í starfi þeirra, svo sem í vinnudeilum og kjarasamningum.
Að beita sér fyrir aukinni samvinnu milli aðildarfélaga.
Að beita sér fyrir samræmdum reglum og gagnkvæmum stuðningi milli aðildarfélaga.
Að beita sér fyrir því að aðildarfélögin séu sem öflugastar félagsheildir og að félög séu ekki smærri en svo að þau geti veitt félagsmönnum sínum alla nauðsynlega þjónustu.
Að leitast við að samræma grundvallarstefnu aðildarfélaga sinna í kjaramálum og standa að gerð kjarasamninga eftir því, sem aðildarfélögin fela því hverju sinni.
Að beita sér fyrir aukinni starfsmenntun, starfsþjálfun, endur- og símenntun félagsmanna.
Að koma fram fyrir hönd aðildarfélaga sinna í sameiginlegum málum og öðru sem þau verða ásátt að fela því.
Að sinna samstarfi við önnur samtök launþega innanlands og utan.
II. kafli
Skilyrði fyrir aðild
4. gr.
Í sambandinu geta verið öll verslunarmannafélög eða deildir verslunarmanna, sem uppfylla skilyrði laga þessara. Ódeildarskipt félög geta einnig fengið aðild að sambandinu fyrir þá félagsmenn sína sem starfa í greininni.
5. gr.
Umsókn um aðild að sambandinu skal vera skrifleg og sendast til stjórnar sambandsins.
Umsókninni skulu fylgja lög félagsins, reglugerðir sjóða þess og upplýsingar um fjölda félagsmanna.
Stjórn getur veitt félagi aðild að sambandinu og skal sú ákvörðun gilda til næsta sambandsþings á eftir, er tekur endanlega ákvörðun um aðild félagsins að LÍV.
6. gr.
Hvert félag skal árlega senda skrifstofu LÍV ársreikninga félagsins áritaða af löggiltum endurskoðanda. Ennfremur skal það skila skýrslum um félagatal og stjórn og starfsemi félagsins á eyðublöðum, sem ASÍ lætur í té og lög ASÍ mæla fyrir um.
Hafi skýrsla og ársreikningar ekki borist innan 12 mánaða frá lokum síðasta reikningsárs, skal skrifstofa sambandsins þegar ganga eftir skilum með þeim hætti sem hentugast þykir.
Beri það ekki árangur og ef vitað er að eitthvert félag hafi ekki haldið aðalfund á heilu almanaksári eða ekki gert ársreikninga, skal formaður LÍV eða aðrir þeir, sem stjórn tilnefnir, óska eftir fundi með stjórn félagsins og vinna að því að aðalfundur verði haldinn.
Hafi aðalfundur ekki verið haldinn í tvö ár, skal stjórn LÍV boða aðalfund í félaginu og sjá til þess að reikningar verði afgreiddir og kosin stjórn.
7. gr.
Félagi, sem fengið hefur aðild að sambandinu, er óheimilt að láta breytingar á lögum sínum koma til framkvæmda fyrr en stjórn sambandsins og miðstjórn ASÍ hafa staðfest þær skriflega.
III. kafli
Þing
8. gr.
Sambandsþing hefur æðsta vald í málefnum sambandsins og skulu þar tekin fyrir þau mál, sem varða sambandið og aðildarfélög þess. Það er lögmætt, ef löglega er til þess boðað og þegar 2/5 fulltrúa eru mættir.
Reglulegt þing skal haldið fyrir lok nóvembermánaðar annað hvert ár. Það skal boða bréflega með a.m.k. tveggja mánaða fyrirvara til allra aðildarfélaga ásamt drögum að dagskrá og ákveður stjórn LÍV fundarstað og tíma. Vakin skal athygli á 6 vikna fyrirvara aðildarfélaganna til að leggja mál fyrir þingið.
Fastir dagskrárliðir reglulegs þings skulu vera:
a. Afgreiðsla kjörbréfa
b. Skýrsla stjórnar
c. Reikningar sambandsins
d. Starfs- og fjárhagsáætlun fyrir næsta kjörtímabil
e. Ákvörðun skatts til sambandsins
f. Kosning stjórnar
g. Lagabreytingar, ef tillögur um þær liggja fyrir
h. Kosning kjörnefndar
i. Reikningar starfsmenntasjóðanna
Að öðru leyti ákveður stjórn dagskrá þingsins og skal hún send aðildarfélögunum a.m.k. 4 vikum áður en það hefst.
Auk þeirra dagskrárliða, sem stjórn þannig ákveður, skal taka á dagskrá tillögur, sem óskað hefur verið ákvörðunar um af einstökum aðildarfélögum, enda hafi slíkar óskir borist stjórn a.m.k. 6 vikum fyrir þingið.
VR sér um daglegan rekstur sambandsins í samræmi við samkomulag LÍV og VR.
9. gr.
Þingfulltrúar geta borið fram tillögur um hvert það mál, sem þeir óska eftir að tekið sé til umræðu og afgreiðslu á þingi sambandsins með samþykki þingsins, sbr. þó. 32. grein um lagabreytingar.
10. gr.
Stjórn getur boðað til aukaþings með 2ja vikna fyrirvara, ef hún telur ástæðu til. Stjórn er skylt að kalla saman aukaþing, ef meiri hluti aðildarfélaganna krefst þess skriflega.
11. gr.
Fulltrúakjör og atkvæðavægi
Hvert félag kýs fulltrúa á þing og á rétt á að minnsta kosti einum fulltrúa. Félag, sem hefur fleiri en 200 félagsmenn skv. reiknireglum ASÍ á auk þess rétt á einum fulltrúa fyrir hver 200 félagsmanna, sem umfram eru eða brot af þeirri tölu, ef það nær 100 eða meiru. Gjaldfrjálsir félagsmenn eru ekki taldir með. Félag, sem hefur fleiri en 1000 félagsmenn skal auk þeirra fulltrúa, sem það fær samkvæmt framansögðu, fá 1 fulltrúa fyrir hver 400 félagsmanna, sem umfram eru eða brot af þeirri tölu ef það nær 200 eða meiru.
Kosningu þingfulltrúa skal lokið eigi síðar en 2 vikum fyrir þing, nema stjórn LÍV veiti þar sérstaka undanþágu.
Atkvæðisrétti aðildarfélags skv. 18. grein verður ekki skipt á færri þingfulltrúa en sem nemur helmingi þess fjölda sem það á rétt á samkvæmt framansögðu. Atkvæðisréttur allra fulltrúa tiltekins aðildarfélags skal vera jafn og skal félagið tilkynna um það hversu marga fulltrúa og hverja það sendir til þings í síðasta lagi viku áður en þingið hefst. Skal félagið kjósa varamenn sem nemur að minnsta kosti helmingi þess fjölda, sem það hyggst senda til þingsins.
Að fengnu samþykki stjórnar er aðildarfélagi heimilt að senda fleiri fulltrúa til þings en stærð félagsins segir til um. Skulu þeir njóta málfrelsis og tillöguréttar en ekki atkvæðisréttar. Beiðni um slíkt skal berast stjórn eigi síðar en einum mánuði fyrir þing.
12. gr.
Kosning til sambandsþings skal fara fram á fundi í félaginu og skal hún auglýst sérstaklega með 3ja daga fyrirvara. Allsherjaratkvæðagreiðsla skal þó fara fram ef stjórn viðkomandi félags ákveður að svo skuli gert. Ennfremur ef 75 félagsmenn eða 1/5 félagsmanna krefjast þess.
Þegar allsherjaratkvæðagreiðsla er viðhöfð skal fara fram listakosning. Til að listi sé löglega fram borinn, þarf meðmæli 25 félagsmanna eða 1/5 félagsmanna. Listi er og löglegur ef stjórn félagsins ber hann fram. Atkvæðagreiðslunni skal stjórnað af 3ja manna kjörstjórn, 2 kosnum af félagsstjórn en 1 tilnefndum af stjórn LÍV og skal hann vera formaður kjörstjórnar. Varamenn kjörstjórnar skulu skipaðir á sama hátt. Skylt er að láta þeim er bera fram lista í té afrit af kjörskrá í viðkomandi kosningu ekki síðar en tveim dögum fyrir kjördag. Allsherjaratkvæðagreiðslan fer að öðru leyti fram skv. reglugerð ASÍ um framkvæmd allsherjaratkvæðagreiðslu.
13. gr.
Fulltrúar félags, sem skuldar skatt til sambandsins eða önnur álögð gjöld eiga ekki rétt til þingsetu en þing LÍV getur veitt þeim heimild til setu sem áheyrnarfulltrúar.
14. gr.
Kjörgengi
Kjörgengir til trúnaðarstarfa fyrir sambandið eru allir fullgildir félagsmenn þeirra verslunarmannafélaga og deilda verslunarmanna, sem aðild eiga að sambandinu. Ennfremur fullgildir félagsmenn sem starfa í greininni og eru félagsmenn í ódeildarskiptum stéttarfélögum, sem eiga aðild að sambandinu.
15. gr.
Starfsmenn þingsins
Formaður sambandsins setur þing sambandsins og stjórnar fundi þar til forseti þingsins hefur verið kjörinn.
Kosinn skal forseti þingsins, varaforseti svo og tveir ritarar. Fráfarandi stjórn undirbýr allar kosningar aðrar en kjör stjórnar sbr. 8. grein. Fulltrúum er heimilt að tilnefna aðra en stjórn og kjörnefnd tilnefnir.
Nefndir:
Kosin skal 7 manna kjörnefnd, sem undirbýr kosningu stjórnar og skoðunarmanna. Nefndin skal starfa milli þinga og þar til kosningu er lokið. Tillögur hennar skulu liggja frammi við upphaf þingfundar.
Stjórn sambandsins skipar 3ja manna kjörbréfanefnd, sem hefur störf fyrir þingið.
Þingið stofnar aðrar nefndir eða vinnuhópa eftir því sem við á.
16. gr.
Kjör stjórnar
Stjórn skipa 7 aðalmenn og 7 til vara. Stjórnin skal kjörin á reglulegu sambandsþingi.
Kjörtímabil stjórnar er tvö ár.
Formaður sambandsins skal kosinn sérstaklega og síðan 6 aðrir aðalmenn og 7 varamenn.
Kosningar skulu vera skriflegar og bundnar við uppástungur. Tillögur kjörnefndar skulu liggja fyrir við upphaf þingsins og þurfa aðrar tillögur að hafa borist innan tveggja klukkustunda frá þingsetningu. Komi eigi uppástungur um fleiri en kjósa skal, er sjálfkjörið. Kosningar fara fram skv. ákvæðum 18. greinar.
17. gr.
Stjórn kýs sér varaformann og ritara og skiptir að öðru leyti með sér verkum.
Ef embættismenn stjórnar láta af störfum á kjörtímabilinu kýs stjórnin mann í staðinn úr sínum hópi fyrir þann tíma, sem eftir er til þings.
18. gr.
Atkvæðagreiðsla
Atkvæðagreiðsla um tillögu fer fram með handauppréttingu, nema óskað sé skriflegrar atkvæðagreiðslu. Skylt er að viðhafa skriflega atkvæðagreiðslu ef 5 fulltrúar óska þess. Heimilt er að framkvæma skriflega atkvæðagreiðslu rafrænt. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum í öllum kosningum nema ákvæði laga þessa mæli fyrir um annað.
Ef skrifleg atkvæðagreiðsla er viðhöfð fer hver þingfulltrúi með atkvæði í samræmi við þá tölu félagsmanna, sem hann er fulltrúi fyrir, þannig:
a) Fulltrúafjölda hvers félags er deilt upp í félagsmannatölu viðkomandi félags skv. útreikningum ASÍ án gjaldfrjálsra.
b) Standi útkoman ekki á heilum tug er hún hækkuð upp eða lækkuð niður þannig að tölur, sem eru lægri en 5 eru felldar niður en tölur hærri en 5 hækkaðar upp.
IV. kafli
Starfssvið stjórnar
19. gr.
Stjórn ræður öllum málefnum sambandsins milli þinga og getur innan þeirra takmarkana, sem sambandslögin og samþykktir þinga setja, skuldbundið sambandið með ályktunum sínum og gerðum.
20. gr.
Nú rís ágreiningur milli félaga innbyrðis eða milli félaga og stjórnar, um málefni sem varða sambandið, t.d. skilning á lögum eða fyrirmælum, og sker þá þing úr slíkum ágreiningi þannig að skuldbindandi er fyrir alla aðila, þar með einnig hvaða ágreiningsmál falli undir þetta ákvæði.
Sambandsþing ákveður hvernig málsmeðferð skuli hagað.
21. gr.
Stjórn tekur til meðferðar öll þau mál, sem ekki teljast daglegur rekstur.
22. gr.
Stjórnin heldur fundi þegar formaður kallar saman fund eða 2 úr stjórn óska þess.
Fundur er lögmætur þegar meirihluti stjórnar er mættur.
V. kafli
Ársfundur ASÍ
23. gr.
Fulltrúar á ársfund ASÍ
Stjórn LÍV skiptir þeim sætum á ársfund ASÍ, sem sambandið fær úthlutað samkvæmt lögum ASÍ. Þessum sætum skal skipt samkvæmt eftirfarandi reglu:
Af heildarfulltrúafjöldanum sem LÍV fær úthlutað skal taka til hliðar fjögur sæti en skipta þeim sem þá eru eftir hlutfallslega niður á aðildarfélögin eftir fjölda fullvinnandi félagsmanna miðað við tekjur næsta árs á undan sbr. lög ASÍ án gjaldfrjálsra. Þó skulu þau félög, sem eru með fleiri en 50 félagsmenn fá a.m.k. einn fulltrúa. Við útreikningana skal fella niður lægri brot en 0,5 en hækka upp hærri brot en 0,5.
Við úthlutun þeirra fjögurra sæta sem frá voru tekin skv. a. lið skal stjórnin taka tillit til þess hvaða félag kæmi næst því að fá fulltrúa samkvæmt reiknireglu a. liðar. Áður en endanleg úthlutun þessara sæta fer fram skal stjórnin hafa samráð við önnur landssambönd ASÍ vegna deilda verslunarmanna í þeim.
24. gr.
Stjórn LÍV skal tilkynna aðildarfélögum sambandsins niðurstöðu sína skv. 23. gr. eigi síðar en 6 vikum fyrir ársfund. Aðildarfélögunum er þá skylt að láta fara fram kosningu fulltrúa á ársfund ASÍ og varamenn þeirra úr hópi félaga sinna. Kjörgengir eru fullgildir félagsmenn þeirra verslunarmannafélaga og deilda verslunarmanna, sem aðild eiga að sambandinu. Kosningu ársfundarfulltrúa samkvæmt framansögðu skal lokið a.m.k. 1 mánuði fyrir ársfund ASÍ og niðurstaða tilkynnt LÍV.
Ljúki einhver aðildarfélaganna ekki kosningu skv. 1. mgr. eða ef einhver aðildarfélög hyggjast ekki nýta þau sæti sem þeim var úthlutað skulu þau tilkynna LÍV það a.m.k. tveimur vikum fyrir ársfund ASÍ. Stjórn LÍV úthlutar þeim sætum sem þannig losna eins fljótt og mögulegt er eftir sömu viðmiðunarreglum og upphafleg úthlutun fer eftir.
25. gr.
Komi upp forföll á síðustu stundu og aðildarfélög geta ekki nýtt þau sæti, sem þau hafa fengið úthlutað, ber þeim að tilkynna LÍV það án tafar.
Eigi síðar en viku fyrir ársfund geta þau aðildarfélög, sem þess óska sent LÍV upplýsingar yfir þá varamenn sína, sem væru tilbúnir til að taka sæti á ársfundi fyrirvaralítið. Stjórn LÍV útbýr samkvæmt þeim upplýsingum sameiginlegan varamannalista LÍV, sem hún getur úthlutað af á síðustu dögum fyrir þingið, ef einhver sæti losna.
Fulltrúum skal raðað á listann með sama hætti og aðalfulltrúum er raðað skv. 23.gr. og skulu varafulltrúar kallaðir inn á ársfund í þeirri röð sem hinn sameiginlegi varamannalisti segir fyrir um. Geti einhver þeirra sem kalla skal inn ekki mætt til ársfundar ASÍ skal næsti fulltrúi á listanum kallaður inn og svo koll af kolli.
VI. kafli
Fjármál
26. gr.
Skattur til LÍV
Aðildarfélög LÍV greiða skatt til sambandsins og ákvarðar reglulegt þing hlutfall skattsins. Skattstofn skal vera sá sami og lög ASÍ ákveða vegna skatts ASÍ.
27. gr.
Gjalddagi skattsins er fjórum sinnum á ári 1. febrúar, 1. apríl, 1. júlí og 1. október og skal greiða hann fyrirfram fyrir einn ársfjórðung í senn. Þrjár fyrstu greiðslurnar skal áætla með hliðsjón af skattgreiðslum aðildarfélags fyrir næsta ár á undan.
Greiði aðildarfélag ekki skatt sinn til sambandsins bæði hvað varðar skatthluta LÍV og ASÍ á réttum gjalddaga, skal reikna dráttarvexti á gjaldfallna skuld þess frá 10. degi eftir gjalddaga (sbr. lög ASÍ).
28. gr.
Félag sem stofnað er á árinu, greiðir skatt hlutfallslega eftir því hvenær á árinu það fær aðild að sambandinu.
29. gr.
Skattur til ASÍ
LÍV innheimtir skatta hjá aðildarfélögum sínum til ASÍ eftir þeim reglum, sem lög ASÍ ákveða.
30. gr.
Ferða- og dvalarkostnaður
Sambandið greiðir ekki tekjutap þingfulltrúa, en stjórninni er heimilt að greiða ferða- og dvalarkostnað fulltrúa, ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
31. gr.
Reikningar sambandsins
Stjórn skal hafa lokið reikningum sambandsins fyrir hvert almanaksár fyrir 1. mars ár hvert og skulu reikningarnir liggja frammi endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda fyrir 1. apríl ár hvert og skulu þeir lagðir fyrir næsta reglulega þing.
Þau ár, sem ekki eru haldin þing skal leggja reikningana fyrir formannafund LÍV. Þeir skulu síðan lagðir til fullnaðarafgreiðslu fyrir næsta þing
VII. kafli
Lagabreytingar
32. gr.
Lögum sambandsins má breyta á reglulegu sambandsþingi.
Tvær umræður skulu vera um lagabreytingar.
Til þess að lagabreyting hljóti samþykki þarf 2/3 hluta atkvæða á þingfundum.
Ef viðhöfð er allsherjaratkvæðagreiðsla skal hún fara eftir reglum 18. greinar.
Tillögur til lagabreytinga skulu komnar til stjórnar eigi síðar en 6 vikum fyrir sambandsþing og skal stjórn senda þær til félaganna, þannig að þau hafi fengið þær í hendur a.m.k. tveimur vikum áður en þing skal hefjast.
VIII. kafli
Önnur ákvæði
33. gr.
Formannafundur
Halda skal fund formanna og stjórnar LÍV það ár, sem ekki er haldið þing.
34. gr.
Ekki má neitt félag í sambandinu taka inn mann, sem er skuldugur eða stendur á annan hátt í óbættum sökum við annað félag í sambandinu eða hefur verið vikið úr því, nema til komi leyfi stjórnar þess félags, er hann áður var í.
35. gr.
Brjóti eitthvert félag í sambandinu lög þess, reglur eða samþykktir getur stjórn, vikið félagi úr sambandinu. Þó skal næsta sambandsþing leggja fullnaðarúrskurð á það mál.
36. gr.
Úrsögn úr sambandinu skal sendast skriflega til stjórnar og verður aðeins tekin til greina að félagið sé skuldlaust við sambandið.
(Samþykkt á seinni hluta 26. þings LÍV, Akureyri 19.- 20. september 2008)