Veruleg neikvæð áhrif
13. febrúar 2023Stýrivaxtahækkun kemur verst við skuldsett heimili
Miðstjórn Alþýðusambands Íslands gagnrýnir harðlega stýrivaxtahækkun Seðlabankans. Meginvextir bankans eru nú 6,5% og hafa ekki verið hærri í þrettán ár. Hækkunin kemur í kjölfar vaxandi verðbólgu en hækkun vísitölunnar í janúar mátti fyrst og fremst rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar.
Í greiningu á áhrifum sem birt var á vef ASÍ kemur fram að áhrif hækkandi stýrivaxta á fjárhag heimilanna sé verulegur en „áhrifin eru mest á skuldsett heimili. Hækkanir á stýrivöxtum hafa takmörkuð áhrif á þá sem eru með verðtryggð lán og óverðtryggð lán með fasta vexti. Vaxtatækið hefur því mest áhrif á heimili með óverðtryggð lán og breytilega vexti. Þar hefur greiðslubyrði hækkað verulega undanfarin misseri. Alls má vænta að vaxtabyrði heimila hafi aukist um 13 milljarða við ákvörðunina.“
Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að eftirspurn eykst nú eftir verðtryggðum lánum, sem þýðir að vaxtastýring Seðlabankans mun hafa sífellt veikari áhrif á verðbólgu. Enda hefur greiðslubyrði vaxið gríðarlega.
„Einstaklingur sem tók lán til kaupa á íbúð í byrjun árs 2021 gat fengið 3,4% vexti á óverðtryggðu húsnæðisláni. Greiðslubyrði á 50 milljón króna láni var á þeim tímapunkti 190 þúsund krónur á mánuði. Á sama láni er greiðslubyrði í dag um 336 þúsund krónur á mánuði og útlit fyrir að greiðslubyrðin geti enn hækkað um 20 þúsund vegna þeirrar vaxtahækkunar sem boðuð var í gær.“