Verkföll hjá Amazon
19. desember 2024Verkföll hjá Amazon og alþjóðlegar aðgerðir stéttarfélaga
Þýska systursamband LÍV, ver.di, hefur tilkynnt um markviss verkföll hjá Amazon yfir hátíðarnar, sem hefjast 19. desember 2024 í Dortmund og Werne. Á sama tíma munu Teamsters í Bandaríkjunum hefja umfangsmestu aðgerðir gegn Amazon í sögu landsins. Verkföllin, sem studd eru af UNI Global Union og Amazon Global Union Alliance, eru viðbrögð við því að Amazon hefur neitað að semja við þau sem hafa skipulagt sig innan stéttarfélaga. Verkfallsvörður verður settur upp á lykilstöðum í borgum eins og New York, Atlanta og San Francisco, með þátttöku víða um Bandaríkin.
UNI Global Union hefur gegnt lykilhlutverki í að skipuleggja mótmælaaðgerðirnar „Látum Amazon borga“ á heimsvísu, og þúsundir félagsfólks tekið þátt í yfir 30 löndum, þar á meðal hér á landi. Þessar aðgerðir varpa ljósi á áhyggjur af vinnubrögðum Amazon, öryggisstöðlum og áhrifum fyrirtækisins á lýðræði. Til dæmis hefur verið greint frá því að Amazon hafi ekki gefið rétt upp hagsmunagæslukostnað sinn í Evrópu og sætt banni frá Evrópuþinginu vegna samvinnuleysis. Í Bandaríkjunum ógna lagalegar aðgerðir Amazon gegn félagsdómi í Bandaríkjunum (NLRB) réttindum allra bandarískra starfsmanna fyrirtækisins.
Amazon stendur frammi fyrir ásökunum um að berjast gegn stéttarfélögum um allan heim. Ver.di í Þýskalandi hefur barist í áratug fyrir því að Amazon virði kjarasamninga, en starfsmenn Amazon í Kanada, Bretlandi og Indlandi hafa greint frá ógnunum frá fyrirtækinu þegar þau vildu stofna stéttarfélög. Í Bandaríkjunum hafa verið haldnar endurteknar kosningar um stofnun stéttarfélaga eftir árásir Amazon gegn stofnun þeirra, og fundum þar sem starfsfólki er ráðið frá því að sækjast eftir aðild að stéttarfélögum.
Aðgerðir „Látum Amazon borga“ hafa haft áhrif á löggjöf, þar á meðal lög í ríkjum eins og Kaliforníu og New York sem bæta vinnuvernd. Í Bretlandi er til umræðu frumvarp um einfaldari viðurkenningu stéttarfélaga, og í Evrópusambandinu sætir Amazon rannsókn vegna vinnuöryggismála. Þessar aðgerðir sýna vaxandi andspyrnu gegn stefnu Amazon og kröfu um bætra kjara fyrir starfsfólk Amazon um allan heim.
Heimild: UNI Europa