Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Stéttarfélög Evrópu kalla eftir auknu lýðræði og áhrifum

Stéttarfélög Evrópu kalla eftir auknu lýðræði og áhrifum – UNI Europa ráðstefnan í Belfast 2025

Yfir 600 fulltrúar stéttarfélaga víðs vegar að úr Evrópu komu saman í Belfast í lok mars til að fagna 25 ára afmæli UNI Europa – og leggja sameiginlega línur að réttlátari framtíð fyrir evrópskt launafólk.

Ráðstefnan, sem stóð yfir í þrjá daga, var haldin undir kjörorðinu „Raunveruleg áhrif, hærri laun“ og einkenndist af samstöðu, baráttuanda og skýrri framtíðarsýn stéttarfélaga gagnvart tæknibreytingum, réttindum launafólks og lýðræðislegri þátttöku.

Fyrsti dagur – Samstaða og nýjar leiðir

Opnunarhátíðin hófst með hvatningarorðum leiðtoga Norður-Írlands og fulltrúa borgaryfirvalda í Belfast, sem lögðu áherslu á mikilvægi verkalýðshreyfingar í uppbyggingu réttláts samfélags. Fjölmargir forystumenn stéttarfélaga í Evrópu lýstu því hvernig stéttarfélög eru að endurskipuleggja starfsemi sína, virkja nýja félaga og sækja fram í nýjum atvinnugreinum, allt frá fjármálageiranum til tölvuleikjaiðnaðarins.

Pallborðsumræður sýndu fram á mikilvægi aðlögunar – hvernig samtök í Austurríki, Finnlandi, Póllandi og Rúmeníu hafa unnið sögulega sigra með markvissri skipulagningu og sterkri félagsaðild. Jafnframt var kynnt ný alþjóðleg miðstöð fyrir ábyrga mannréttindastefnu í fyrirtækjum, með áherslu á félagafrelsi og kjarasamningsrétt.

Annar dagur – Krafan um áhrif og réttlæti

Aðalumræðuefni annars dags snérist um kjarasamninga, umbætur á opinberum útboðum og raunvirði vinnu launafólks. Frá Belgíu var rætt um styttingu vinnuvikunar og á Írlandi voru fyrstu „Framfaraverðlaunin“ veitt fyrir árangur í kjarasamningsbaráttu. Ver.di í Þýskalandi hlaut verðlaun fyrir herferð sem tryggði 16% launahækkun og yfir 20.000 nýja félaga.

UNI Europa kynnti herferðina „Ekkert opinbert útboð án kjarasamnings“, sem hlaut víðtækan stuðning – meðal annars frá Evrópuþingmönnum. Fordæmt var að fyrirtæki sem brjóta á réttindum launafólks njóti opinbers fjárstuðnings.

Í umræðum um stafræna umbreytingu og velferð starfsfólks kom fram skýr krafa um að kjarasamningar taki mið af nýjum raunveruleika: nýtingu gervigreindar, fjarvinnu og geðheilbrigðismál. Efnahagsráðherra Norður-Írlands lagði áherslu á mannsæmandi störf sem mælikvarða á heilbrigt hagkerfi.

Þriðji dagur – Verndum lýðræðið og framtíð vinnunnar

Lokadagurinn beindi sjónum að hættum og tækifærum tengdum gervigreind. Forystufólk stéttarfélaga í fjölmörgum löndum lýsti yfir áhyggjum af gagnsæisskorti, auknu álagi og lýðræðishalla í kjölfar stafrænnar umbreytingar. Krafist var bindandi evrópskrar löggjafar og mannlegs eftirlits með notkun gervigreindar.

Dæmi voru tekin af skapandi störum og fjármálageiranum þar sem breytingar hafa orðið án þess að loforð um ný störf eða aukin réttindi hafi gengið eftir. Fulltrúar launafólks löguð áherslu á: Gervigreind á að styðja við launafólk, ekki grafa undan því.

Í lok ráðstefnunnar voru samþykktar ályktanir gegn öfgahægri öflum og til varnar lýðræði. Peter Hellberg og Oliver Roethig voru endurkjörnir sem forseti og svæðisritari UNI Europa og Lieveke Norga kjörin sem fyrsti varaforseti. Með þeirri forystu og skýra stefnu stefnir UNI Europa að því að efla réttindi og áhrif launafólks fram til næstu ráðstefnu árið 2030.

Sameinuð stéttarfélög – sterkara Evrópa

Skilaboð ráðstefnunnar voru skýr: Launafólk um alla Evrópu á rétt á raunverulegum áhrifum, hærri launum og að teknar séu sanngjarnar og mannúðlegar ákvarðanir um framtíð vinnunnar. Þau markmið nást aðeins með samstöðu, skipulagningu og öflugri verkalýðshreyfingu sem er tilbúin að takast á við bæði pólitískar og tæknilegar áskoranir komandi ára.