Segir frumvarpið fallegar umbúðir um vont mál
31. október 2022Frumvarpið aðför að launafólki
Formaður LÍV, Ragnar Þór Ingólfsson, segir frumvarp þingmanna Sjálfsstæðisflokksins atlögu að frelsi launafólks og hefta möguleika þess til þess að sækja sér betri lífskjör í grein sem birtist á visir.is. Ragnar segir m.a. í greininni:
„Líkt og þekkt er úr smiðju þeirra sem vilja brjóta á bak aftur samtök launafólks, þá er hér vondu máli pakkað inn í fallegar umbúðir sem merktar eru með frelsi. Því hver er á móti frelsi? Þar er talað um valdeflingu launafólks sem eru vægast sagt öfugmæli. Frumvarpið snýst um að brjóta niður verkalýðshreyfinguna í þeirri mynd sem við þekkjum í dag með því að auka möguleika þeirra til atvinnu sem eru tilbúnir að standa utan stéttarfélaga. Og dettur einhverjum í hug að fólk sem stendur utan stéttarfélags sé í betri og valdeflandi stöðu til að sækja sér kjarabætur? Eða leggja út fyrir kostnaði við að sækja rétt sinn sé á því brotið? Eða efla veikindarétt, stytta vinnuviku, fjölga orlofsdögum, byggja hagkvæmt húsnæði, lengja fæðingarorlof og byggja ofan á þau mikilvægu réttindi sem verkalýðshreyfingunni hefur tekist að ná fram síðustu áratugi í krafti fjöldans og samstöðunnar í gegnum stéttarfélögin? Hvað þá að spyrna við sjálftökunni og spillingunni sem grasserar í okkar samfélagi?“
Ljóst er að samtök launafólks og LÍV þar með talin, leggjast gegn því frumvarpi sem komið er fram og raunar furðar miðstjórn ASÍ sig á þeirri tímasetningu sem hér er, að þetta frumvarp komi fram á sama tíma og kjarasamningar eru lausir.