SA kallar tjón yfir samfélagið
12. mars 2024SA kallar tjón yfir samfélagið frekar en að hlýða á fámennan hóp láglaunafólks
Yfirlýsing frá samninganefnd VR
Samninganefnd VR fordæmir ákvörðun Samtaka atvinnulífsins um að hefja atkvæðagreiðslu um verkbann gagnvart skrifstofufólki innan VR. Atkvæðagreiðsla um verkbann eru ofsafengin viðbrögð við sjálfsögðum kröfum fámenns hóps sem starfar eftir lágmarkstöxtum við farþegaþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli.
Forsaga málsins er sú að framlínustarfsfólk í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli hefur um nokkra hríð reynt að ná fram breytingum á sínum kjörum og vinnufyrirkomulagi. Þau starfa á lágmarkstöxtum eftir sérkjarasamningi sem tekur breytingum samhliða aðalkjarasamningi VR og um helmingur þeirra nýtur ekki sjálfsagðs réttar til samfellds vinnutíma yfir vetrarmánuðina. Á veturna er þeim gert að starfa á svokölluðum stubbavöktum og mæta þá milli 5 og 9 að morgni og þurfa að mæta aftur til vinnu milli 13 og 17.
Ástæðan fyrir því er að samninganefnd VR ákvað á fundi sínum 6. mars sl. að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall meðal þessa hóps er að lítið hafði þokast í viðræðum við SA um sérkjarasamninginn og stjórnendur Icelandair höfðu heldur ekki brugðist við fjölmörgum og ítrekuðum ábendingum starfsfólksins. Á fundum VR og SA í gær, með aðkomu trúnaðarmanns og starfsmanns Icelandair og stjórnenda Icelandair, áttu sér stað uppbyggilegar viðræður um lausnir til handa þessum hópi. VR hlýddi á og brást við sjónarmiðum SA og Icelandair og lagði fram tillögur til umræðu sem gætu verið til þess fallnar að stuðla að farsælli lausn. Í stað þess að bregðast við tillögum VR ákvað SA að beina þreki sínu í að efna til atkvæðagreiðslu um verkbann gagnvart öllu skrifstofufólki í röðum VR. Með verkbanninu er verið að reyna að kúga VR og starfsfólk Icelandair í farþega- og hleðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli til hlýðni í nafni stöðugleika. Svar samninganefndar VR er að stöðugleiki verður aldrei reistur á herðum fólks sem starfar á lágmarkskjörum. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að kjarabætur fyrir hóp eins og þennan séu undir í kjaraviðræðum, óháð því hvaða samningar hafa gengið á undan við önnur félög.
Verði verkbann SA gagnvart skrifstofufólki VR að veruleika getur það sett fjölda fyrirtækja á hliðina með alvarlegum afleiðingum fyrir launafólk og fyrirtæki. Samtök atvinnulífsins eru, með öðrum orðum, tilbúin til að kalla gríðarlegt fjárhagstjón yfir samfélagið allt, fremur en að bregðast við hófstilltum kröfum fámenns láglaunahóps á Keflavíkurflugvelli.
Samninganefnd VR skorar á SA að skipta um kúrs og vinna heldur að því með VR að finna lausn á þeim fáu atriðum sem út af standa í kjaraviðræðum. Samninganefnd VR hefur einnig beint því til stjórnar vinnudeilusjóðs VR að útfæra greiðslur til þeirra einstaklinga sem verkbannið mun ná til.
12. mars 2023
Samninganefnd VR