Réttlát umskipti er krafa 33. þings LÍV
23. október 2023Þing LÍV krefur stjórnvöld um réttlát umskipti
33. þing Landssambands íslenzkra verzlunarmanna telur að stjórnvöld hafi brugðist launafólki og almenningi öllum í að stuðla að réttlátum umskiptum.
Þrátt fyrir að íslensk heimili beri einungis ábyrgð á 10% útlosunar gróðurhúsalofttegunda og atvinnulíf 90% er almenningur látinn bera byrðarnar af loftslagsaðgerðum á meðan fyrirtækjum er hlíft. Áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum felast í ríkulegum styrkjum og fjárhagslegum ívilnunum úr opinberum sjóðum til fyrirtækja sem skila hagnaði upp á milljarða og greiða sum hver fleiri milljarða út í arð. Á meðan leggja stjórnvöld auknar álögur á almenning sem leggjast þyngst á þá sem minnst hafa, ofan á þá verðbólgu sem er til staðar í samfélaginu, sem stjórnvöld ná engum tökum á. Í stað þess að láta stórfyrirtæki og fjármagnseigendur borga sanngjarna skatta og eðlilegt gjald fyrir nýtingu á auðlindum í þjóðareign og gera þeim sem bera mesta ábyrgð á vandanum að standa straum af þeim kostnaði sem fylgir loftslagsaðgerðum, er almenningur skyldaður til að greiða reikninginn. Stjórnvöld ýta því ekki einungis undir ójöfnuð með loftslagsaðgerðum sínum heldur hefur þeim mistekist að draga úr mengun, sem heldur áfram að aukast.
Þing Landsamband íslenskra verzlunarmanna krefst þess að launafólk og almenningur njóti góðs af aukinni framleiðni sem hefur hlotist af tæknibreytingum og sjálfvirknivæðingu en ábatinn hefur safnast á hendur fárra. Þrátt fyrir að landsframleiðsla á mann hafi margfaldast á síðustu áratugum og Íslendingar séu meðal ríkustu þjóða heims búa þúsundir enn við fátækt og sífellt fleiri heimili ná ekki endum saman. Þá er vinnuvika Íslendinga mun lengri en í nágrannalöndunum og starfsævi Íslendinga sú lengsta í Evrópu.
Réttlát umskipti fela í sér að tækifærum og byrðum sem felast í loftslags- og tæknibreytingum sé dreift með réttlátum og sanngjörnum hætti. Loftslagsbreytingum fylgja miklar áskoranir en aðgerðir til að stemma stigu við þeim geta einnig falið í sér tækifæri til að vinna gegn félagslegu og efnahagslegu misrétti og auka jöfnuð og velferð. Aukin framleiðni vegna tækniframfara getur einnig skilað gríðarlegum ávinningi fyrir samfélagið allt. Auk efnahagslegs ábata geta tæknibreytingar aukið lífsgæði, með styttri vinnutíma og auknum sveigjanleika sem getur fjölgað samverustundum með vinum og fjölskyldu og gert fólki kleift að sinna áhugamálum sínum í meiri mæli.
Ekkert af þessu gerist þó sjálfkrafa og til að allir njóti ábatans af aukinni framleiðni vegna tækniframfara og að loftslags- og tæknibreytingar leiði ekki til aukins ójöfnuðar, þurfa stjórnvöld að marka stefnuna. Núverandi stefna stjórnvalda ýtir undir ójöfnuð og grefur undan samfélagslegri sátt og framförum.
Landssamband íslenzkra verzlunarmanna krefst þess að stjórnvöld takist á við áskoranir samtímans með réttlát umskipti og hag almenning að leiðarljósi, rétt eins og ríkisstjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar kveður á um.