Ragnar Þór lætur af formennsku LÍV
09. desember 2024Ragnar Þór lætur af formennsku
Ragnar Þór Ingólfsson hefur látið af formennsku í Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna en sem kunnugt er var hann kjörinn á þing í Alþingiskosningunum þann 30. nóvember sl. Ragnar Þór lætur af störfum frá og með deginum í dag, 9. desember 2024. Eiður Stefánsson, varaformaður LÍV, hefur tekið við sem formaður, í samræmi við starfsreglur stjórnar LÍV, og gegnir formennsku út kjörtímabilið sem lýkur á þingi félagsins í október árið 2025.
Ragnar Þór Ingólfsson var fyrst kjörinn formaður LÍV í mars 2019, og gegndi því formennsku í þessu stærsta landssambandi ASÍ í rúmlega fimm ár og hefur verið endurkjörinn í þrennum kosningum síðan þá. Ragnar Þór lagði mikla áherslu sem formaður LÍV að sambandið væri leiðandi í umræðu um lýðræðisvæðingu og aukin áhrif launafólks á vinnustaði sína, mikilvægi þess að tryggja réttlát umskipti þegar kemur að bæði loftslagsáskorunum og tæknibreytingum sem nú þegar eru að hafa bein áhrif á störf félagsfólk innan LÍV, auk áherslu hans á húsnæðismál. Jafnframt lagði Ragnar Þór áherslu á að efla erlent samstarf LÍV sem m.a. gerðist aðili að European Transport Workers Federation og mótaði starf alþjóðafulltrúa LÍV.
„Ég hef verið svo lánsamur að hafa starfað með einstökum hópi bæði kjörinna fulltrúa Landssambands íslenzkra verzlunarmanna og starfsfólks sambandsins i rúm fimm ár. Stjórn LÍV er afar öflug og sem formaður hef ég notið góðs af þeirri fagmennsku sem einkennir hennar störf sem og starfsfólks sambandsins. Nýjum formanni og sitjandi stjórn óska ég velfarnaðar í þeim verkefnum sem framundan eru og þakka samstarfið,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, alþingismaður og fráfarandi formaður LÍV.
„Ég vil færa Ragnari Þór Ingólfssyni bestu þakkir fyrir hans störf í þágu Landssambands íslenzkra verslunarmanna sem spanna nær sex ár. Við höfum unnið þétt saman í stjórn LÍV og átt afar gott samstarf í kjarasamningsgerð fyrir hönd félagsfólks LÍV. Ragnar hefur í starfi sínu sem formaður LÍV talað máli allra félaga sem eru í sambandinu og verið óþreytandi í því að berjast fyrir betri lífskjörum launafólks. Hann hefur haft vakandi auga fyrir þeim breytingum sem eru að verða á störfum okkar félagsfólks og mikilvægi góðs samstarfs við hreyfingu launafólks erlendis. Ég tek við öflugu sambandi og við munum áfram vinna saman að hagsmunum okkar félagsfólks og viðhalda okkar tengslum. Stjórn LÍV óskar Ragnari velfarnaðar í störfum sem hans bíða núna á nýkjörnu Alþingi,“ segir Eiður Stefánsson, formaður LÍV.