Ráðherra beiti sér fyrir afnámi laga um undanþágu afurðastöðva frá samkeppnislögum
02. apríl 2024FA, VR og Neytendasamtökin skora á matvælaráðherra
FA, VR og Neytendasamtökin hafa sent Katrínu Jakobsdóttur, starfandi matvælaráðherra, erindi vegna nýsamþykkra laga um undanþágu kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum. Samtökin leggja til að ráðherra beiti sér fyrir ógildingu laganna, sem líkleg séu til að brjóta gegn bæði EES-samningnum og stjórnarskrá Íslands.
Í erindinu benda samtökin þrenn á að ráðherra hafi verið í lykilstöðu til að hafa áhrif á framgang málsins á Alþingi þar sem hún hafi verið starfandi matvælaráðherra og jafnframt forsætisráðherra, verkstjóri ríkisstjórnarinnar. Í stað þess að bregðast við viðvörunum Samkeppniseftirlitsins og fjölda samtaka við því að málið yrði að lögum, hafi hún komið í fjölmiðla eftir samþykkt þess og sagst ætla að biðja matvælaráðuneytið að skoða hvort hin nýju lög fari í bága við EES-samninginn. Samtökin benda á að í reglum ríkisstjórnarinnar sé gert ráð fyrir að slíkt mat fari fram áður en mál eru lögð fram á Alþingi, en ekki eftir samþykkt þeirra.
Samtökin taka jafnframt undir ábendingar um að meðferð málsins á Alþingi hafi gengið í berhögg við 44. grein stjórnarskrárinnar, um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja fyrr en það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Málinu hafi verið gerbreytt við 2. umræðu. Það þingmál sem var samþykkt hafi því verið allt annað en það sem umsagnaraðilar höfðu tekið afstöðu til í samráðsferli og í umsögnum til Alþingis og allt annað en það sem þingmenn ræddu við 1. umræðu. Ekki verði því séð að lögin hafi verið sett með stjórnskipulega réttum hætti.
Niðurlag erindisins er eftirfarandi:
„Að mati samtakanna ber ráðherra við þessar aðstæður augljós skylda til að aðhafast tafarlaust að eigin frumkvæði til að tryggja þrennt:
- Að lagasetningin sé í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
- Að mat á áhrifum lagasetningarinnar sé í samræmi við reglur ríkisstjórnarinnar. sjálfrar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna
- Að meðferð Alþingis á málinu sé í samræmi við stjórnarskrána.
Beinast liggur við að ráðherra beiti sér fyrir því að lög nr. 1322/2024 verði felld úr gildi. Athafnaleysi ráðherra í þessu máli er líklegt til að skaða hagsmuni neytenda, launþega og verslunar í landinu. Óskað er svars hið fyrsta um það til hvaða ráðstafana ráðherra hyggst grípa.“