LÍV undirritar kjarasamning við SA
14. mars 2024Kjarsamningur undirritaður, atkvæðagreiðsla boðuð
LÍV og Samtök atvinnulífsins hafa skrifað undir kjarasamning sem gildir til loka janúar árið 2028. Samningurinn verður kynntur af félögunum og lagður fyrir félagsfólk í atkvæðagreiðslu sem fyrirhugað er að ljúki þann 21. mars 2024.
Markmið samningsins er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta. Þá er markmiðið jafnframt að auka kaupmátt launafólks, skapa fyrirsjáanleika í efnahagslífinu, draga úr verðbólguvæntingum og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.
Laun taka hlutfallshækkun en að lágmarki 23.750 kr. Launahækkun er afturvirk, laun hækka frá og með 1. febrúar 2024 um 3,25% en um 3,5% þann 1. janúar árin 2025, 2026 og 2027. Kjaratengdir liðir hækka samsvarandi. Þá hækka desember- og orlofsuppbætur á samningstímanum.
Samið var um aukin réttindi vegna orlofs. Til dæmis skal starfsfólk sem starfað hefur í 6 mánuði í sama fyrirtæki og náð hefur 22 ára aldri eða í 6 mánuði í sama fyrirtæki eftir framhaldskólapróf eiga rétt á orlofi í 25 daga og er miðað við orlof sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025. Orlofsréttindi verða svo aukin frekar orlofsárið sem hefst 1. maí 2026, meðal annars er þá kveðið á um að eftir 6 ár í sama fyrirtæki skuli starfsfólk hafa 30 daga orlof.
Sérstakur kafli um fjarvinnu er nú hluti af kjarasamningi með það að markmiði að tryggja réttindi starfsfólks í fjarvinnu. Þá er einnig gerð breyting á rétti starfsfólks til setu á fagtengdum námskeiðum án skerðingar á dagvinnulaunum og getur starfsfólk nú varið allt að 16 dagvinnustundum á ári til slíkra námskeiða.
Hvað varðar kjör félagsfólks VR í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli náðist samkomulag um að unnið verði að breytingu á vaktafyrirkomulagi í samstarfi við ríkissáttasemjara og á þeirri vinnu að vera lokið fyrir 20. desember. Þá var samið um hærri biðgreiðslur fyrir þau sem ekki eru með samfelldan vinnutíma.
Ítarlegri kynning á kjarasamningnum verður birt á vefnum á næstu dögum og verður hann jafnframt kynntur af félögum í LÍV.