Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

LÍV styður aðgerðir PAM

LÍV styður kröfur verslunarfólks í Finnlandi

Aukinn þungi er nú í verkfallsaðgerðum í Finnlandi en vinnustöðvun hófst hjá félögum okkar í PAM mánudaginn 17. febrúar þegar starfsfólk í flutningum og heildverslunum lagði niður störf. Þeim aðgerðum lýkur á morgun,  20. febrúar. Í morgun, 19. febrúar,  lagði starfsfólk í verslunum víðsvegar um Finnland niður störf og mun sú vinnustöðvun standa til 22. febrúar, nema samningar náist fyrir þann tíma. Þessar aðgerðir ná til  hátt í 70 þúsund félaga sem starfa í helstu dagvöruverslunum.

Stjórn Landssambands íslenzkra verzlunarmanna lýsir yfir fullum stuðningi við verkfallsaðgerðir PAM sem eru systursamtök LÍV í Finnlandi, enda eru kröfur PAM hóflegar og í fullu samræmi við það markmið stéttarfélaga á Norðurlöndunum að tryggja félögum sínum sanngjörn laun og góð störf. PAM segir laun félagsfólks ekki hafa fylgt verðlagsþróun og sú mikla verðbólgubylgja sem gekk yfir Finnland kalli á leiðréttingu á kaupmætti launafólks. Félagar í PAM hafi orðið sérstaklega illa úti í niðurskurðarstefnu núverandi hægristjórnar og hækkun á virðisaukaskatti komi sérstaklega illa við þau sem lægstu launin hafi, enda greiði þau hlutfallslega mun meira af launum sínum í nauðsynjar. Það sé því nauðsynlegt að koma til móts við þennan hóp., Launahækkunin muni að auki skila sér beint til atvinnurekenda því félagar í PAM muni nota hana til þess að standa undir útgjöldum, en ekki í fjárfestingar eða í sparnað.

Krafa PAM er því að kaupmáttur launa aukist og verði sambærilegur við það sem var fyrir heimsfaraldurinn og því verðbólguskoti sem fylgdi stríðsátökum í Úkraínu. Krafa PAM er að mánaðarlaun hækki um 250 evrur á mánuði og verði það gert með 6 prósenta hækkun (eða að lágmarki 150 Evru hækkun) fyrsta árið og 4 prósenta hækkun (eða að lágmarki 100 Evru hækkun) á öðru ári kjarasamnings.

 Að sama skapi telur PAM það réttlætismál að störfin tryggi launafólki mannsæmandi lífskjör og að komið sé í veg fyrir að starfsfólk sé þvingað í hlutastörf sem komi harðast niður á konum og barnafjölskyldum. Álagið sé mikið á þeim sem þvinguð séu í slík störf, þau þurfi að finna fleiri en eitt starf og búi við stöðugt andlegt álag. Slíkt álag sé ómanneskjulegt og hafi augljós neikvæð áhrif á heilsufar launafólks.

PAM leggur á það áherslu að starfsfólk eigi rétt á jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Starfsfólk á ekki að þurfa að vera undir stöðugu eftirliti og kröfu um að það bregðist við skilaboðum frá atvinnurekenda hvenær sem er. Við eigum öll rétt á hvíld og friðhelgi. Þá verði atvinnurekendur tryggja naðusynlega þjálfun og menntun starfsfólks, í kjölfar niðurskurðar hjá hinu opinbera.


Stjórn LÍV tekur undir þessar kröfur PAM og lýsir yfir fullum stuðningi við félaga okkar í Finnlandi í baráttu fyrir bættum lífskjörum. LÍV minnir á mikilvægi þess að standa vörð um réttindi launafólks til þess að eiga aðild að raunverulegum stéttarfélögum sem berjast fyrir bættum kjörum og nýta þau sjálfsögðu mannréttindi launafólks að leggja niður störf til þess knýja fram kjarasamninga.