Húsnæðislán er ekki neyslulán
05. maí 2022Húsnæðislán er ekki neyslulán
Þórarinn Eyfjörð, formaður Sameykis, gagnrýnir stjórnvöld og Seðlabanka Íslands harðlega í nýlegri grein í Kjarnanum og bendir á að þróun á húsnæðismarkaði sé bein afleiðing af röngum ákvörðunum í efnahagsmálum og að vaxtahækkanir sem nú séu að koma fram komi lang verst niður á þeim sem síst standa undir þeim. "Verðbólga á Íslandi mælist nú 7,2 prósent og býst Seðlabankinn við að hún muni aukast næstu misserin sem þýðir að stýrivextir munu halda áfram að hækka. Stýrivextir koma í bakið á launafólki og verst koma þessar stýrivaxtahækkanir við ungt fólk og láglaunastéttir." segir Þórarinn meðal annars í grein sinni.
Hann skorar á stjórnvöld að bregðast við því ástandi sem hér ríkir. "Ríkisstjórn Íslands á að tryggja almenna velferð. Til þeirra verka voru þingmenn sem síðar urðu ráðherrar kjörnir. Ef þeir geta ekki tryggt grunnþarfir almennings eins og þeir voru kjörnir til, eiga þeir að segja af sér þingmennsku. Og við höfum ekkert að gera með ríkisstjórn sem lætur grundvallar hagsmuni almennings sig ekki neinu varða."