Hóflegar launahækkanir nægja ekki einar og sér
01. mars 2024Yfirlýsing frá viðræðunefnd VR og LÍV vegna yfirstandandi kjaraviðræðna
Viðræðunefnd VR og Landssambands ísl. verzlunarmanna (LÍV) hefur fundað stíft í vikunni og farið yfir stöðuna í kjaraviðræðum. Eins og kunnugt er slitu VR og LÍV sig frá samstarfi á vettvangi breiðfylkingar sem einnig var mynduð af SGS, Eflingu og Samiðn. Í kjölfarið funduðu samninganefndir VR og LÍV og mynduðu sérstaka viðræðunefnd til að halda viðræðum áfram. Trúnaðarráð VR kom einnig saman í vikunni til að ráða ráðum sínum.
Að mati viðræðunefndar standa út af mikilvæg atriði sem varða félagsfólk VR og LÍV og verður að leiða til lykta svo hægt sé að ljúka kjarasamningagerð. Við upphaf viðræðna milli breiðfylkingarinnar og SA var rætt um breiða kjarasamninga sem myndu vera í líkingu við þjóðarsátt með það að markmiði að koma böndum á verðbólguna og stuðla að ásættanlegu vaxtastigi. Greindir voru fjórir samhangandi þættir sem gætu náð því markmiði, það er að segja hóflegar launahækkanir, endurreisn stuðningskerfa launafólks í gegnum vaxta- og barnabætur, sterk forsenduákvæði svo endurskoða megi samninga ef markmið þeirra ganga ekki eftir og víðtæk sátt um að koma í veg fyrir verðlagshækkanir. Til viðbótar hefur það verið mat VR og LÍV að ná þurfi tökum á húsnæðismálum og treysta varnir fyrir bæði húsnæðiseigendur og leigjendur.
VR og LÍV féllust á að fara fram með hóflegar kröfur um launahækkanir í þessu samhengi. Af þessum atriðum standa eingöngu hóflegar launahækkanir eftir. Verði það niðurstaðan er ljóst að almennu launafólki verður gert að bera eitt byrðarnar af því að ná verðbólgunni niður, sem það átti ekki þátt í að stofna til. Enn fremur er hætt við að markmiðin náist ekki þar sem atvinnurekendur hafa ekki fallist á að axla ábyrgð á verðhækkunum og hafa skellt skollaeyrum við sjálfsögðum kröfum um sterk forsenduákvæði.
Á vettvangi VR og LÍV eru einnig ýmis sérmál sem ekki hefur gefist færi á að ræða. Má þar nefna atriði sem lúta að starfsmenntamálum og starfsreynslu ungmenna, en einnig samninga varðandi kjör starfsfólks í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli en þar er starfað eftir vinnufyrirkomulagi sem þekkist hvergi annars staðar á íslenskum vinnumarkaði.
VR og LÍV hafa óskað formlega eftir því við ríkissáttasemjara að hann hlutist til um viðræður við SA vegna kjarasamninga félaganna. Það er áríðandi að hefja viðræður þegar í stað um þau atriði sem að framan greinir og ná samstöðu um kjarasamninga til næstu ára.
Félagsfólk LÍV telur ríflega 47 þúsund að VR meðtöldu og er því stærsta samband launafólks á Íslandi. Í viðræðunefnd sitja fyrir hönd VR Ragnar Þór Ingólfsson, Bjarni Þór Sigurðsson, Halla Gunnarsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Selma Björk Grétarsdóttir og Þórir Hilmarsson og fyrir hönd Landssambands ísl. verzlunarmanna Eiður Stefánsson.