Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Hagstjórn sligar heimilin

Hvernig hagstjórnin fer með heimilin

Stefán Ólafsson skrifaði nýlega grein á Heimildin þar sem hann fjallar um áhrif hagstjórnar ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans á íslensk heimili, með áherslu á erfiðleika heimila við að ná endum saman vegna verðbólgu og vaxtahækkana. Þrátt fyrir að stjórnvöld vísi til þess að vanskil á húsnæðislánum hafi ekki aukist verulega, eru slík rök veik þar sem fjölskyldur forgangsraða húsnæðiskostnaði fram yfir aðra útgjaldaliði. Margar fjölskyldur hafa flutt lán sín úr óverðtryggðum lánum í verðtryggð, sem dregur úr greiðslubyrði, en veldur minni eignamyndun.

Kannanir sýna mikla aukningu á erfiðleikum heimila við að ná endum saman frá 2021 til 2023. Þessi þróun er sérstaklega áberandi meðal verkafólks og almennra launþega, þar sem hlutfall þeirra sem upplifa mikla erfiðleika jókst verulega á tímabilinu. Til dæmis fór hlutfall verkafólks með erfiðleika úr 38% árið 2021 í 60% árið 2023. Jafnframt sýna kannanir hvernig erfiðleikarnir eru mismunandi eftir tekjuhópum, þar sem lægri tekjuhópar eru mun líklegri til að eiga í erfiðleikum.

Aðgerðir Seðlabankans hafa því mest áhrif á tekjulægri hópa, þar sem vaxtahækkanir leggjast þungt á skuldsett heimili, en betur stæð heimili finna minna fyrir þeim. Þetta þýðir að vaxtastefnan skilar litlum árangri við að draga úr verðbólgu, þar sem úrræðin beinast að röngum hópum, sem hafa ekki vald til að stýra verðbólguhvetjandi neyslu.

Lesa má grein Stefáns á vef ASÍ