Framhaldsþing LÍV haldið í Hallormsstað
11. mars 2022Framhaldsþing LÍV haldið í Hallormsstað
Framhaldsþing Landsambands íslenskra verzlunarmanna verður haldið á Hótel Hallormsstað dagana 24.-25. mars. Þing var haldið rafrænt í október 2021 og var þá ákveðið að slá á frest málefnastarfi þingsins og freista þess að halda framhaldsþing þegar afléttingar sóttvarnayfirvalda væru orðnar með þeim hætti að hægt væri að hittast í raunheimum. Í ljósi aðstæðna nú hefur stjórn LÍV ákveðið að blása til þings og er undirbúningur þess í fullum gangi. Þeir þingfulltrúar sem áttu seturétt á þinginu í október 2021 eiga sjálfkrafa seturétt á framhaldsþinginu.
Málefnavinnan á þessu þingi mun taka mið af því að framundan eru kjaraviðræður á haustmánuðum. Óhætt er að segja að félögin innan LÍV standi frammi fyrir margvíslegum áskorunum í tengslum við þá samninga og því mikilvægt að stilla saman strengi og þétta raðirnar. Staða kjarasamninga í kjölfar heimsfaraldurs er flókin og eiga þingfulltrúar því eiga verðugt verkefni fyrir höndum.