Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Forstjórar fá hundraðföld laun

Forstjórar í Evrópu með rúmlega 100 föld meðallaun

Forstjórar helstu fyrirtækja í Evrópu eru að borga sjálfum sér 110 sinnum hærri laun en meðallaun launafólks samkvæmt greiningu ETUC, samtaka launafólks í Evrópu.

Með meðal grunnlaun upp á 1.571.000 evrur í árslaun og að teknu tilliti til bónusa sem eru allt að 200% hærri en launin, þá fengu forstjórar 100 stærstu fyrirtækja í Evrópu 4.147.440 evrur að meðaltali í laun á síðasta ári. Á sama tíma voru meðal árslaun 37.863 evrur fyrir fullt starf.

Niðurstöðurnar eru birtar nú í aðdraganda árlegrar samkomu forstjóra í Davos og ETUC segir hættu á að þessi mikla misskipting, skaði bæði efnahagslífið og setji lýðræði í Evrópu í hættu.

Lág laun hafa aukið skort á vinnuafli í Evrópu, þar sem rannsóknir sýni að atvinnugreinar sem eiga erfiðast með að ráða starfsmenn borgi 9% minna að meðaltali en þær atvinnugreinar sem auðveldast eiga með að ráða starfsfólk.

Aukin ójöfnuður

Rannsóknir sýna einnig að þau sem búa við lág laun, lélegt starfsumhverfi og lítið starfsöryggi hafa minni trú á því að lýðræði sé að virka fyrir sig. 

Því er brýnt að fjölga launfólki í Evrópu sem starfar samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga, því kjarasamningar hafa sannarlega bætt starfsskilyrði og draga úr misskiptingu.

Samkvæmt lágmarkslaunatilskipun ESB eigi aðildarríkin á þessu ári að gera aðgerðaáætlun um hvernig þau hyggjast stuðla að kjarasamningum og tryggja að lágmarki 80% starfandi fólks sé að vinna samkvæmt kjarasamningi.

ETUC skorar jafnframt á framkvæmdastjórn Evrópusambandsins að nota endurskoðun sína á tilskipunum um opinber innkaup til að tryggja að aðeins fyrirtæki sem virða kjarasamningarétt séu gjaldgeng til að fá samninga.

Esther Lynch, aðalritari ETUC sagði:

„Þessi óboðlegi launamunur forstjóra og starfsfólks sýnir að brýnt er að endurstilla efnahagslífið með því að fjölga vinnandi fólki sem nýtur kjarasamninga og styrkja stéttarfélög.

„Sanngjarnari laun myndu efla samkeppnishæfni, skortur á vinnuafli minnka í Evrópu og hagvöxtur í Evrópu aukast, því launagreiðslur enda síður í skattskjólum.

"Að draga úr misskiptingu auðs og bæta starfsumhverfi launafólks væru jafnframt áhrifaríkustu viðbrögðin við lýðræðisógninni sem stafar af öfgahægri öflum. Það þarf ekki annað en horfa til viðburða í Washington DC í næstu viku til þess að sjá afleiðingar af auðræði.

„Þess vegna skora ég á forstjóra sem funda í Davos að leggja frá sér snitturnar og ganga til samninga við samtök launafólks í Evrópu.

Heimildir:

Skýrsla Mercer um laun forstjóra í 100 stærstu evrópsku fyrirtækjunum: https://www.mercer.com/assets/uk/en_gb/shared-assets/local/attachments/board-and-ceo-remuneration-in-europe-november -2024.pdf

Eurostat gagnagrunnur (nama_10_fte) um tekjur starfsfólks: https://ec.europa.eu/eurostat/databrowser/view/nama_10_fte/default/table?lang=en