Fjallað um fjarvinnu
05. desember 2024Evrópsk stéttarfélög fjalla um fjarvinnu
Yfir 50 leiðtogar stéttarfélaga, sérfræðingar og fulltrúar frá tæplega 20 löndum komu saman í Antwerpen í Belgíu þann 14. nóvember til að ræða áskoranir við kjarasamningagerð nú þegar fjarvinna er að aukast og þykir eðlileg. Ráðstefnan, sem var skipulögð af UNI Europa, markaði lok verkefnisins „Addressing Remote Work through Collective Bargaining and Organising“ (ARCO), sem fékk styrk frá Evrópusambandinu.
Þátttakendur frá fjármála- og upplýsingatækni- og samskiptageiranum lögðu áherslu á þörfina fyrir öflugar stefnumótun stéttarfélaga til að verja kjör starfsfólks í greinum sem hafa breyst mikið vegna fjarvinnu. Þrátt fyrir að fjarvinna hafi fært starfsfólki ákveðinn ávinning – svo sem betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og aukna þátttöku – hafa einnig komið upp áskoranir eins og einangrun, aukið vinnuálag og misrétti hvað varðar hverjir njóta sveigjanlegra vinnufyrirkomulags.
Oliver Roethig, framkvæmdastjóri UNI Europa, hóf ráðstefnuna með því að leggja áherslu á mikilvægi sanngjarnrar stefnu um fjarvinnu. „Starfsmenn eiga rétt á að hafa áhrif og njóta góðra kjara og þá má ekki vera íþyngjandi að vinna heima,“ sagði hann og benti á hættuna á kulnun. Gögn sýna að starfsmenn í fjarvinnu eru sex sinnum líklegri til að vinna utan hefðbundins vinnutíma, þróun sem UNI Europa og tengd stéttarfélög leggja áherslu á að þurfi að takast á við til að verja réttindi starfsmanna.
UNI Europa hefur lengi verið í fararbroddi í að berjast fyrir réttindum starfsmanna í fjarvinnu. Árið 2021, þegar heimsfaraldurinn COVID-19 stóð sem hæst, gaf UNI út „UNI Key Trade Union Principles for Ensuring Workers’ Rights When Working Remotely.“ þar sem farið var yfir stefnumörkun fyrir kjarasamninga til að tryggja réttindi og aðstæður starfsmanna í fjarvinnu.
Ný skýrsla um fjarvinnu
ARCO-verkefnið byggði á þessum grunni með tveimur vinnustofum fyrr á þessu ári. Sú fyrsta, sem haldin var í París, einblíndi á skipulagningu fjarstarfsmanna og gerð góðra kjarasamninga, á meðan sú seinni, í Dyflinni, skoðaði áhrif fjarvinnu á kyn, fjölbreytileika og þátttöku.
Niðurstöður þessara vinnustofa voru ræddar á ráðstefnunni, þar sem Ben Egan, skipulagsstjóri UNI Europa, Adrian Soare (FSAB, Rúmeníu) og Hanneli Lindholm (Sænskir verkfræðingar) fjölluðu um skipulagningu fjarstarfsmanna, á meðan Amel Djemail, jafnréttisfulltrúi UNI Europa, Frédéric de Fondaumière (FBA-CFDT, Frakklandi) og Riccarda Darmanin (GWU, Möltu) sýndu fram á aðgerðir stéttarfélaga til að koma í veg fyrir að fjarvinna hafi neikvæð áhrif á konur og minnihlutahópa á vinnustöðum.
Á ráðstefnunni kynnti utanaðkomandi rannsakandi verkefnisins, Dr. Nicole Helmerich, niðurstöður þessara vinnustofa og lokaúttekt verkefnisins, „Trade Unions in the New World of Remote Work: The Challenges and Opportunities of Bargaining Collectively in Finance and ICTS.“ Skýrslan inniheldur hagnýt verkfæri fyrir stéttarfélög við gerð samninga um fjarvinnu.