Biðstaða í kjaraviðræðum
29. febrúar 2024Kjaraviðræður í biðstöðu
Kjaraviðræður hafa nú staðið yfir frá því félögin sem stóðu að breiðfylkingu ASÍ mótuðu kröfur sínar um launalið og hugmyndir um áherslur varðandi aðkomu ríkisins að samningum undir lok ársins 2023. Töluverð bjartsýni ríkti undir lok ársins 2023 að með hófsömum launakröfum myndu samningar við Samtök Atvinnulífsins ganga vel, enda væri miklir sameiginlegir hagsmunir fólgnir í því að halda niðri verðlagi og ná þannig fram vaxtalækkunum. Mikilvægt væri að ríkið myndi koma myndarlega að málum til þess að styrkja og endurreisa millifærslukerfi sem hefðu verulega látið undan síga á undanförnum árum.
Markmiðið í samningaviðræðunum væri að ná kjarasamningi þar sem nokkur áhætta væri tekin varðandi verðlagsþróun, sem yrði þá mætt með forsenduákvæðum sem gæfi launafólki varnagla ef þróun verðlags yrði óhagstæð. Í stuttu máli sagt þá voru Samtök Atvinnulífsins ekki sérlega hrifin af hugmyndum verslunarfólks hvað varðaði forsenduákvæðin og því fór svo að verslunarfólk ákvað undir lok mánaðarins að segja sig frá breiðfylkingunni og stofnaði í kjölfarið viðræðunefnd VR og í henni sitja fyrir hönd VR Ragnar Þór Ingólfsson, Bjarni Þór Sigurðsson, Halla Gunnarsdóttir, Ólafur Reimar Gunnarsson, Selma Björk Grétarsdóttir og Þórir Hilmarsson og fyrir hönd Landssambands ísl. Verzlunarmanna Eiður Stefánsson.
LÍV er stærsta landssamband launafólks á almennum vinnumarkaði með meira en 40 þúsund félaga og mun viðræðunefndin nú taka kröfur aðildarfélaganna áfram í viðræðum við atvinnurekendur.