Ber launafólk ábyrgð á stöðugleikanum?
05. ágúst 2022Sanngjarnt og réttlátt?
„Er sanngjarnt og réttlátt að láta þann sístækkandi hóp venjulegra launamanna sem á í erfiðleikum með að láta enda ná saman í hverjum mánuði bera einan ábyrgð á stöðugleika sem bætir fyrst og síðast fjárhagslega tilveru annarra?“ spyr Þórður Snær Júlíusson í leiðara í Kjarnanum. Þar fjallar hann um hvort það geti verið sanngjörn og réttlát krafa á hendur launafólki að það skuli bera meiri ábyrgð, en þeir sem hafa hagnast gríðarlega á undanförnum árum.
Þórður Snær segir leiðaranum "Ótrúlegt en satt þá skilja flestir að það tapa allir á höfrungahlaupi víxlverkandi launahækkana. Það að sækja sífellt fleiri krónur í veskið skilar sér ekki í auknum kaupmætti heldur éti verðbólga hann upp með aukinni dýrtíð og stórauknum afborgunum af húsnæðislánum. Og það er sannarlega hægt að fá launafólkið til að taka þátt í að ná því markmiði að mynda stöðugleika með hóflegum kröfum. En það verður að vera stöðugleiki allra. Hinir angarnir; ríkisstjórnin, Seðlabankinn og atvinnulífið, verða að spila með og leggja sitt að mörkum. Það gera þeir ekki. Þvert á móti auka þeir misskiptingu og passa fyrst og fremst upp á sitt."