Atvinnulýðræði er löngu tímabært
19. apríl 2024Aukið atvinnulýðræði er löngu tímabært
Áskorun á hendur forystu launafólks á Íslandi um að taka undir ákall um aukið atvinnulýðræði var samþykkt á fundi sem VR stóð fyrir meðal fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar 18. apríl. Virkt lýðræði er forsenda þess að fólk, fyrirtæki, stofnanir og samfélagið allt blómstri, segir í ályktuninni.
Fundurinn var haldinn að frumkvæði framtíðarnefndar VR og var fulltrúum samtaka launafólks á Íslandi boðið. Markmiðið var að ræða hvernig hægt er að auka aðkomu launafólks að ákvörðunum sem hafa áhrif á störf þeirra en VR hefur haldið kröfunni um aukið lýðræði á vinnumarkaði á lofti síðustu ár. Það er óásættanlegt að starfsfólkið sem skapar verðmætin sé ekki haft með í ráðum þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa djúpstæð áhrif á störf þeirra og framtíð. Ísland sker sig úr þegar kemur að aðkomu starfsfólk að ákvarðanatöku, því ólíkt Norðurlöndunum á starfsfólk á Íslandi almennt ekki fulltrúa í stjórnum fyrirtækja sem það starfar hjá.
Erlendir sérfræðingar um atvinnulýðræði héldu áhugaverða fyrirlestra um málefnið. Isabelle Schömann, sérfræðingur frá ETUC, Sara Lafuente, sérfræðingur frá ETUI og Richard Wolff prófessor í hagfræði og stofnandi Democracy at work fjölluðu um atvinnulýðræði frá mörgum sjónarhornum og efndu til umræðu um stöðuna og framtíðina.
Í lok fundar var samþykkt ályktun þar sem bent er á mikilvægi aðkomu launafólks og samtaka þeirra í ákvarðanatöku til þess að tryggja réttlæti fyrir hönd starfandi fólks.
Ályktunin í heild sinni er svohljóðandi:
Fundur VR um atvinnulýðræði, haldinn fimmtudaginn 18. apríl 2024, skorar á forystu samtaka launafólks á Íslandi að taka undir ákall um áherslu á aukið atvinnulýðræði á Íslandi.
Mikilvægi þess að horft sé til langtíma sjónarmiða í rekstri fyrirtækja er óumdeilt og nú þegar fyrirtæki og stofnanir standa frammi fyrir breytingum vegna tæknibreytinga og nýtingar gervigreindar, er mikilvægt að tryggja að ávinningurinn skili sér til allra hagsmunaaðila. Horfa verður til hagsmuna starfsfólks og samfélagsins alls, en ekki eingöngu þröngra hagsmuna um hámörkun arðsemi.
Sömuleiðis er ljóst að loftslagsvandi og viðbrögð við honum hafa margvísleg áhrif á launafólk og mikilvægt að áhersla sé á réttlát umskipti og lýðræðisvæðingu ákvarðanatöku, þar sem starfsfólk tekur þátt í því að móta eigin framtíð.
Þetta kallar á aðkomu launafólks og samtaka þeirra til þess að tryggja réttlæti fyrir hönd starfandi fólks. Áratuga reynsla í Evrópu af aðkomu launafólks að stjórnun og stefnumótun vinnustaða í gegnum samráð og stjórnarsetu sýnir að tími er kominn til þess að hér á landi eigi launafólk fulltrúa í stjórnum vinnustaða sinna.
Virkt lýðræði er forsenda þess að fólk, fyrirtæki, stofnanir og samfélagið allt blómstri.