Fara á efnissvæði
Aftur í fréttayfirlit

Atvinnuleysi á Íslandi í alþjóðlegum samanburði

Atvinnuleysi á Íslandi í alþjóðlegum samanburði – niðurstöður nýrrar vinnumarkaðsskýrslu ASÍ

Í nýrri skýrslu Alþýðusambands Íslands, Íslenskur vinnumarkaður 2025, kemur fram að íslenskur vinnumarkaður stendur sterkur í alþjóðlegum samanburði. Atvinnuþátttaka á Íslandi er meðal þeirrar hæstu sem þekkist innan OECD-ríkja, atvinnuleysi er lágt og langtímaatvinnuleysi með því minnsta sem sést í Evrópu.

Þróun atvinnuleysis hefur fylgt hagsveiflunni, en íslenskur vinnumarkaður hefur jafnað sig hratt eftir áföll. Árið 2024 mældist atvinnuleysi að jafnaði 3,5%, samanborið við 6% að meðaltali í Evrópusambandinu og 5% meðal OECD-ríkja. Langtímaatvinnuleysi er takmarkað – aðeins fimmtungur atvinnulausra hefur verið án vinnu lengur en tólf mánuði, og innan við 3% lengur en tvö ár.

Skýrslan sýnir að atvinnuleysi snertir fjölbreyttan hóp fólks – bæði íslenska og erlenda ríkisborgara – án þess að einn hópur skeri sig sérstaklega úr. Hlutfall erlendra ríkisborgara á atvinnuleysisskrá hefur þó aukist á síðustu árum og var um 56% í ágúst 2025. Þrátt fyrir það er tíðni langtímaatvinnuleysis svipuð hjá báðum hópum.

Menntunarstig virðist ekki ráða miklu um hversu lengi fólk er án vinnu. Háskólamenntaðir eru stærsti hópur atvinnulausra, en hlutfallið hefur haldist svipað á undanförnum árum.

Bæði ASÍ og LÍV benda á í umsögnum sínum, að áform ríkisstjórnar um breytingar á atvinnuleysistryggingakerfinu eru kynnt án nægrar greiningar á áhrifum þeirra. Að mati bæði LÍV og ASÍ er ekki ljóst hvernig skerðing réttinda launafólks muni stuðla að aukinni virkni, en hætta sé á að slíkar breytingar auki álag á önnur velferðarkerfi og veiki tengsl fólks við vinnumarkaðinn.

Skýrslan undirstrikar að atvinnuleysistryggingar eru afrakstur baráttu verkalýðshreyfingarinnar og hafi þróast í takt við breytingar á vinnumarkaði. Mikilvægt sé að framtíðarsýn kerfisins byggi áfram á samráði, traustum greiningum og virkri þátttöku aðila vinnumarkaðarins.

Heimild: Vinnan