Atlagan að kjörum og réttindum launafólks
30. desember 2024Atlagan að kjörum og réttindum launafólks 2024
Árið 2024 var sannarlega ekki ár ládeyðu. Kjaradeildur og tvennar kosningar settu svip sinn á árið og breytingar á stjórnmálasviðinu mætti gera upp í löngu máli. Í þessari grein er hins vegar ætlunin að kafa undir yfirborðið og beina sjónum að birtingarmyndum niðurskurðarstefnu (e. austerity) á árinu sem er að líða.
VR hefur undanfarið vakið athygli á inntaki niðurskurðarstefnu og þeirri atlögu sem í henni felst að kjörum og réttindum launafólks. Í fyrsta lagi felur stefnan í sér niðurskurð á opinberum útgjöldum, vanrækslu innviða og einkavæðingu grunnþjónustu. Í öðru lagi birtist hún í háum stýrivöxtum sem aðgerð gegn verðbólgu og í þriðja lagi kemur niðurskurðarstefna fram í tilraunum til þess að brjóta niður réttindi og kjör almenns launafólks. Niðurskurðarstefna er sögð eiga að koma jafnvægi á ríkisútgjöld og örva hagvöxt, en er í rauninni skipulögð leið til að tryggja hag þeirra sem eiga á kostnað þeirra sem vinna, skulda og leigja. Og birtingarmyndir hennar á árinu 2024 voru margþættar.
Kjarasamningar á almennum vinnumarkaði
Í upphafi árs stigu helstu embættismenn og stjórnmálamenn landsins á sviði ríkisfjármála fram og tóku ábúðarfullir undir ákall atvinnurekenda um að verkalýðshreyfingin yrði að „sýna ábyrgð“ í komandi kjarasamningum. Verðbólga var þá 6,6%, vextir höfðu verið háir í á annað ár og seðlabankastjóri sagði að kjarasamningar væru „langstærsti óvissuþátturinn“ fyrir væntanlegt vaxtalækkunarferli. Þetta var í takti við það leiðarstef niðurskurðarstefnu að verðbólgu megi að stofninum til rekja til þess að launafólk hafi það of gott og njóti of hárra launa, en lítill fótur er fyrir slíkum kenningum. Innan verkalýðshreyfingarinnar var umdeilt hvernig bregðast ætti við hinum samstillta kór en úr varð að stéttarfélög á almennum markaði undirrituðu kjarasamninga til fjögurra ára með svo hóflegum launahækkunum að á verðbólgutímum geta þær hæglega leitt til raunlaunalækkana. Þessir samningar áttu síðan að vera skapalónið fyrir alla sem á eftir komu.
Svo mikilvægt var að aga vinnumarkaðinn í heild sinni inn í sams konar samninga að þegar lítill hópur félagsfólks VR í farþega- og hleðsluþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli óskaði eftir leiðréttingu á sínum kjörum, m.a. afnám tvískiptra vakta sem standast enga skoðun, efndi SA til atkvæðagreiðslu um verkbann. Kjaradeilan varðaði um 170 starfsmenn Icelandair en verkbannið átti að beinast gegn 25 þúsund félögum í VR. Annað eins offors þekkist hvergi á Norðurlöndunum og því síður í öðrum OECD-löndum þar sem verkbönn eru ýmist óheimil eða þeim settar mun meiri skorður en hér á landi. Verkbannshótunin getur ekki flokkast sem annað en atlaga að réttindum launafólks til að knýja á um bætt kjör.
Það sama má segja um nýlega aðgerð SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, sem hafa stofnað stéttarfélag sem er ekki stéttarfélag og gert við það kjarasamning sem er ekki kjarasamningur. Stéttarfélög eru enda félög vinnandi fólks, ekki atvinnurekenda, og kjarasamningar eiga að vera gerðir með aðkomu fólksins sem er gert að vinna eftir samningunum.
Stýrivextir sem aldrei lækka
Með undirritun kjarasamninga tók verkalýðshreyfingin áhættu fyrir hönd launafólks, en hún var tekin á forsendum loforða um að atvinnurekendur myndu forðast verðhækkanir og hið opinbera gjaldskrárhækkanir. Þannig mætti ná niður verðbólgu sem aftur myndi leiða til lækkunar stýrivaxta. Rétt er að ítreka að þarna að baki býr kenningarrammi um verðbólgu sem er sannarlega ekki hafinn yfir vafa. Niðurstaðan var engu að síður þessi og lántakendur bjuggu sig undir vaxtalækkunarferli.
En svo leið mánuður. Og annar. Og annar. Og annar. Og annar. Og einn enn. Sífellt fleiri húsnæðislántakendur misstu fasta vexti og þurftu annaðhvort að sætta sig við svimandi háa greiðslubyrði eða flýja yfir í verðtryggð lán og horfa upp á skuldir sínar aukast. Það var ekki fyrr en í byrjun október að vextir lækkuðu lítillega og síðan aðeins meira í nóvember, í miðri kosningabaráttu þar sem mikið var undir fyrir valdaflokka landsins. Bankarnir brugðust síðan við með því að hækka vexti á verðtryggðum lánum samhliða lækkun vaxta á óverðtryggðum lánum. Næsta vaxtaákvörðun verður í febrúar en þá verður tæpt ár liðið frá undirritun kjarasamninga. Fullyrðingar um að lægri stýrivextir myndu fylgja „hóflegum“ kjarasamningum stóðust ekki þegar á reyndi. Og venjulegt fólk þarf því að taka á sig tvöfalt högg og borga bæði fyrir verðbólguna, í formi hærra verðlags, og kostnaðinn við að ná henni niður, í formi vaxta og verðbóta.
Gjaldskrárnar sem ekki standa í stað
Eitt af því jákvæða við síðustu kjarasamninga var sá hluti aðgerða stjórnvalda sem laut að gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Sú aðgerð dregur bæði úr fátækt og ójöfnuði og kemur til móts við barnafólk á tímum sem eru þeim fjárhagslega krefjandi. Samhliða undirgengust bæði ríki og sveitarfélög að þau myndu ekki hækka gjaldskrár umfram 3,5%. Þar voru fasteignagjöld hins vegar ekki undir en þau taka nú stórfelldum hækkunum samhliða hækkun fasteignaverðs. Sú hækkun kemur venjulegu fólki almennt illa, enda er hún afleiðing þeirrar stefnu að nálgast húsnæði sem fjárfestingatækifæri, fremur en heimili. Hátt fasteignaverð kemur í veg fyrir að ungt fólk og leigjendur geti eignast varanlegt heimili og hefur líka bein áhrif á bæði vísitölu og verðbólgu.
Fullyrðingar um að lægri stýrivextir myndu fylgja „hóflegum“ kjarasamningum stóðust ekki þegar á reyndi
Enn fremur hafa sum sveitarfélög farið algjörlega á skjön við ákallið um hóflegar gjaldskrárhækkanir þegar kemur að leikskólum. Launafólk sem vinnur venjulegan vinnudag hefur þurft að taka á sig hundruð þúsunda í hækkun leikskólagjalda á ári í nokkrum sveitarfélögum. Kópavogur reið á vaðið í fyrra og nú síðast tilkynnti Fjarðabyggð um áform sín um þátttöku í þessari aðför að kjörum foreldra og jafnrétti kynjanna.
Loks þarf að nefna helmings hækkun iðgjalds náttúruhamfarasjóðs sem nú skilar sér í hækkun á skyldutryggingum. Ekki verður gert lítið úr fjárhagslegum áhrifum náttúruhamfara síðustu ára, en það er engu að síður ábyrgðarhluti á tímum hárra vaxta að standa að varanlegri hækkun trygginga fyrir allan almenning.
Verðlagið sem sífellt hækkar
Víkur þá sögunni að verðlagshækkunum sem áttu helst ekki að verða. Nú undir lok árs hafa bæði kjötafurðastöðvar og grænmetisbændur tilkynnt verðlagshækkanir eftir áramót og sælgætisframleiðendur virðast ætla að margnýta sér hækkun á heimsmarkaðsverði súkkulaðis til að rökstyðja áframhaldandi verðhækkanir. Hvað kjöt varðar þá er árið 2024 einmitt fyrsta árið þar sem kjötafurðastöðvar eru undanþegnar ákvæðum samkeppnislaga. Þetta átti að skila sér til neytenda en í reynd voru breytingarákvæði við lagafrumvarp skrifuð af hagsmunaaðilum og svo miklar voru breytingarnar að Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað lögin ólögmæt.
Grænmetisbændur vísa svo aftur til hækkunar á raforku. Þar kann að vera að vandinn sé blásinn óþarflega út, en staðreyndin er samt sú að stjórnvöld hafa brugðist í að tryggja vernd heimila og lítilla fyrirtækja gagnvart markaðsvæðingu raforku. Á árinu 2024 hefur raforka til heimila hækkað um ríflega 13%, eða næstum tvisvar sinnum meira en vísitala neysluverðs. Í heilt ár hafa Neytendasamtökin kallað eftir því að sett sé arðsemisþak á sölu rafmagns til heimila, en slíkt þak á sér stoð í hinum margumrædda orkupakka þrjú. En stjórnvöld hafa þagað þunnu hljóði og heimili eru sett í samkeppni við stórfyrirtæki um raforku sem mun halda áfram að hækka, ef ekkert verður að gert.
Meðferð opinbers fjár
Eitt af því sem einkennir niðurskurðarstefnu er að almenningur greiðir hana dýru verði í gengum hærri húsnæðiskostnað og verðlag, lakari þjónustu og aukna gjaldtöku. Helsta réttlæting slíkrar stefnu er alla jafna sótt í að takast þurfi á við ríkisfjármálin af festu, ná tökum á efnahagsóværu, borga niður skuldir og draga úr fjárlagahalla. Þessi söngur var áberandi í aðdraganda síðustu kosninga og kosningabaráttan einkenndist satt að segja af loforðaflaumi um hvernig mætti skera niður ríkisútgjöld, með áherslu á góða meðferð opinbers fjár. Varla er til sú launamanneskja sem ekki vill að vel sé farið með opinbert fé. Við verjum enda dágóðum hluta tekna okkar í skatta sem við viljum njóta góðs af í gegnum menntun og heilbrigðisþjónustu, velferð og vegi. Hins vegar eru mjög fá dæmi um niðurskurð á ríkisútgjöldum sem hefur virkað í þágu launafólks. Þvert á móti hækka gjöldin, þjónustan skerðist og við greiðum meira fyrir minna. Þannig eru meintar sparnaðaraðgerðir hins opinbera oft kostnaðaraukandi fyrir alla framtíð og búa jafnvel til nýja krana úr ríkissjóði yfir í vasa einkaaðila. Tvö sláandi dæmi á þessu ári eru annars vegar „nýtt fyrirkomulag í húsnæðismálum hjúkrunarheimila“ og hins vegar framkvæmdir við Ölfusárbrú.
Í stað þess að ríki og sveitarfélög ábyrgist uppbyggingu hjúkrunarheimila (og þar með veitingu heilbrigðisþjónustu í landinu) er nú verið að færa verkefnin til einkaaðila sem reisa húsin og senda ríkinu reikning fyrir leigu. Fyrirkomulagið er sótt til Bretlands en þar hefur verið sýnt fram á að því fleiri svið sem einkavæðingin nær inn á, þeim mun meira fjármagn lekur úr ríkissjóði inn í fjárfestingasjóði og í skattaskjól. Eigendur húsnæðis undir hjúkrunarheimili verða alltaf í einokunarstöðu gagnvart ríkinu því plássin mun skorta samhliða öldrun þjóðar. Þetta er hins vegar frábært fyrirkomulag fyrir fasteignafélög sem geta sjálf ákveðið leiguna, og ríkissjóður borgar.
Í nóvember sl. tók innviðaráðherra í starfsstjórn skóflustungu og undirritaði verksamning um nýja Ölfusárbrú. Framkvæmdirnar eru eftir svokölluðum PPP-samstarfssamningi ríkissjóðs og einkaaðila (public privat partnerships), nema að farin er hin klassíska íslenska leið þar sem ábyrgðin er ekki sett að fullu á herðar einkaaðilans heldur er hún færð til ríkissjóðs. Vegfarendur eiga síðan að borga framkvæmdina með veggjöldum og hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda sýnt fram á að gjaldið fyrir eina ferð verður 60–80% hærra en ef ríkið myndi sjálft fjármagna verkefnið. Umframgjaldið fer í hærri vaxtakostnað og svo þurfa einkaaðilarnir að fá eitthvað fyrir sinn snúð. Eftir stendur að skattgreiðendur og vegfarendur greiða brúna allt að helmingi hærra verði en þyrfti.
Hvað gerist árið 2025?
Þegar þessi grein er rituð eru allar líkur á að ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins taki við stjórnartaumunum. Þeirrar ríkisstjórnar bíða krefjandi verkefni og þau allra mikilvægustu lúta að því að standa við fyrirheit stjórnvalda vegna kjarasamninga og grípa til bráðaaðgerða fyrir þá hópa leigjenda og skuldara sem hafa farið verst út úr hávaxtastefnunni. Þörf er á mikilli innviðauppbyggingu á Íslandi, hvort sem litið er til heilbrigðisþjónustu eða menntunar, velferðar eða samgöngumála. Öðru fremur þurfa stjórnvöld að forðast pytti niðurskurðarstefnunnar og taka mark á reynslu og rannsóknum á því hvað virkar og hvað ekki við stjórn efnahagsmála. Launafólk á ekki að taka á sig frekari byrðar en orðið er.
Á vinnumarkaði er nauðsynlegt að kalla forsendunefnd ASÍ og SA saman og fara yfir árangur og árangursleysi kjarasamninganna. Ljóst er að atvinnurekendur verða að standa við sitt og sporna gegn verðhækkunum, samhliða því að leggjast á árarnar með verkalýðshreyfingunni til að tryggja vernd launafólks gegn ósanngjörnum hækkunum á raforku, leikskólagjöldum og fasteignagjöldum. Jafnframt er það verkefni aðila vinnumarkaðarins að knýja á um lausnir í húsnæðismálum sem virka fyrir fólk. Að öðrum kosti er hætt við að þeir kjarasamningar sem nú eru í gildi verði samningar kjararýrnunar og þá hefði verið betur heima setið en af stað farið.
Halla Gunnarsdóttir,
formaður VR