33. þing LÍV hafið
19. október 202333. þing Landssambands íslenzkra verslunarmanna sett í morgun
33. þing Landssambands íslenzkra verslunarmanna var sett á Hótel Selfossi í morgun, fimmtudaginn 19. október 2023 og stendur þingið yfir til föstudagsins 20. október. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður LÍV, setti þingið og Finnbjörn Hermannsson, forseti ASÍ, ávarpaði þingfulltrúa.
Meðal framsögufólks eru Auður Alfa Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá ASÍ, sem heldur erindi um réttlát umskipti og Victor Karl Magnússon, sérfræðingur hjá VR, sem fjallar um framtíð starfa í stafrænum heimi. Þá heldur Linda Palmetzhofer, formaður Handels í Svíþjóð, erindi um stöðu verslunarfólks á Norðurlöndunum.
Seinni dagur þingsins verður helgaður málefnastarfi í tengslum við kröfugerð VR/LÍV í komandi kjarasamningum. 73 fulltrúar frá VR sitja þingið auk 14 fulltrúa frá aðildarfélögum LÍV hvaðanæva af landinu.
Við þetta tilefni fengu þrjú gullmerki LÍV fyrir framúrskarandi störf í þágu verslunarfólks á Íslandi fyrir störf sín í þágu Landssambands íslenzkra verslunarmanna. Þau voru:
Úlfhildur Rögnvaldsdóttir
Úlfhildur tók við formennsku Félags verslunar- og skrifstofufólks Akureyri 2005 og var formaður fram til ársins 2015 en sat í stjórn LÍV á árunum 2002 – 2014. Hún var varaformaður LÍV frá 2011 - 2013 og gengdi embætti formanns frá maí til nóvember 2013. Hún var ritari LÍV í 4 ár. Auk þess gegndi Úlfhildur margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hönd LÍV á vettvangi ASÍ. Úlfhildur var fjarstödd og tók Eiður Stefánsson við viðurkenningunni fyrir hennar hönd.
Sólveig Haraldsdóttir
Sólveig kom úr röðum Verslunarmannafélags Hafnarfjarðar. Hún sat í stjórn LÍV í 19 ár frá árinu 1989 til 2008 og gegndi stöðu varaformanns í 3 ár 1999 til 2002 auk þess að vera gjaldkeri LÍV í 6 ár. Auk þess gegndi Sólveig margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir hönd LÍV á vettvangi ASÍ. Sólveig var fjarstödd og mun því taka við viðurkenningu frá okkur á skrifstofu LÍV.
Guðbrandur Einarsson
Guðbrandur starfaði í stjórn LÍV í 20 ár og var formaður í Verslunarmannafélagi Suðurnesja frá 1998 og gengdi því starfi allt þar til félagið sameinaðist VR árið 2019.
Guðbrandur sat í stjórn Landssambands íslenskra verzlunarmanna (LÍV) 1999–2019 og var Formaður Landssambands íslenskra verzlunarmanna (LÍV) 2013–2019.
Guðbrandur sat í miðstjórn ASÍ 2004–2018 og sat fyrir hönd LÍV í fjölda nefnda ASÍ m.a. kjara- og skattanefnd ASÍ 2004–2010, efnahags- og skattanefnd ASÍ 2010–2018, velferðarnefnd ASÍ 2004–2012, skipulags- og starfsháttanefnd ASÍ 2016–2018, laganefnd ASÍ 2016–2018, starfs- og fjárhagsnefnd ASÍ 2016–2018, launanefnd ASÍ 2016–2018.
Auk þess var Guðbrandur Varamaður í Vinnumarkaðsráði Suðurnesja 2007–2015. Í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs 2010–2014. Varamaður í stjórn Vinnumálastofnunar 2010–2014. Í fulltrúaráði VIRK – starfsendurhæfingarsjóðs 2010–2018.