Ræktum vitið
Ræktum vitið er átaksverkefni VR/LÍV og SVÞ. Verkefnið stuðlar að hæfniaukningu starfsfólks í verslun og þjónustu. Örar breytingar hafa átt sér stað innan verslunar- og þjónustustarfa og þörfin á verkefninu er því mikil. Það er mikilvægt fyrir bæði starfsfólk og atvinnurekendur að símenntun sé sjálfsagður partur af störfum innan verslunar og þjónustu. Eins hefur erlendu starfsfólki hefur fjölgað og fólk er lengur á vinnumarkaði sem eykur þörfina á því að fólk stundi reglulega símenntun.
Vefsíðan Ræktum vitið er hluti af viðamiklu átaki í starfsmenntamálum á vegum VR og Landssambands íslenskra verzlunarmanna ásamt Samtökum verslunar og þjónustu. Samstarfssamningur VR/LÍV og SVÞ um átak í sí- og endumenntun var undirritaður 2023 og kveður á um markvissa vinnu að hæfniaukningu starfsfólks í verslun og þjónustu allt til ársins 2030.
Þrjú meginmarkmið samningsins
Samningur VR/LÍV og SVÞ felur í sér þrjú meginmarkmið. Fram til ársins 2030 er stefnt að því að 80% af starfsfólki fyrirtækja í verslun og þjónustu sæki nám sem hefur að markmiði að auka hæfni og þekkingu.
Þá verður sérstök áhersla lögð á að auka þekkingu og hæfni þess stóra hóps starfsfólks í verslunar- og þjónustufyrirtækjum sem hefur íslensku sem annað tungumál. Markmiðið er að 80% þessa hóps búi árið 2030 yfir hæfni B1 í íslensku samkvæmt viðmiðum Evrópska tungumálarammans (European Language Portfolio).
Í þriðja lagi er stefnt að því að verslunar- og þjónustugreinin þrói og skilgreini aðferð sem leiði af sér viðurkenningu/vottun á gefnum markmiðum samningsins.