Kjarasamningar LÍV 2024 - 2028
Hér er að finna upplýsingar um kjarasamninga sem LÍV hefur gert við bæði Félag Atvinnurekenda og Samtök Atvinnulífsins.
Kjarasamningur við Samtök Atvinnulífsins:
Kjarasamningur við Félag Atvinnurekenda:
Upplýsingaefni frá mars 2024
LÍV skrifaði undir kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, miðvikudaginn 13. mars 2024. Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.
LÍV skrifaði undir samsvarandi kjarasamning við Félag atvinnurekenda, fimmtudaginn 14. mars 2024.
Samningarnir fela í sér launahækkun upp á 3,25% eða 23.750 að lágmarki frá 1. febrúar
Kynning á kjarasamningi LÍV við SA og FA
Hver verða launin þín?
LÍV hefur útbúið launareiknivél sem reiknar út þína launahækkun samkvæmt nýjum kjarasamningi.
Helstu atriði kjarasamninga
-
Meginmarkmið samnings þessa er að stuðla að minnkun verðbólgu og lækkun vaxta, sem er mikið hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Jafnframt er markmið samningsins að auka kaupmátt launafólks, skapa fyrirsjáanleika í efnahagslífinu, draga úr verðbólguvæntingum og styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Samningur þessi kveður einnig á um framleiðniauka til alls launafólks, sem byggir á mældri framleiðni, og kauptaxtaauka á kauptaxta kjarasamninga.
-
Laun taka hlutfallshækkun á samningstímanum, með krónutöluhækkun að lágmarki:
- 1. febrúar 2024: laun hækka um 3,25% en 23.750 kr. að lágmarki.
- 1. janúar 2025: laun hækka um 3,50% en 23.750 kr. að lágmarki.
- 1. janúar 2026: laun hækka um 3,50% en 23.750 kr. að lágmarki.
- 1. janúar 2027: laun hækka um 3,50% en 23.750 að lágmarki.
Kjaratengdir liðir hækka með samsvarandi hætti.
Desemberuppbót fyrir hvert almanaksár miðað við fullt starf er:
- Á árinu 2024 106.000 kr.
- Á árinu 2025 110.000 kr.
- Á árinu 2026 114.000 kr.
- Á árinu 2027 118.000 kr.
Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (1. maí til 30. apríl) miðað við fullt starf er:
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2024 verði orlofsuppbót kr. 58.000.
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025 verði orlofsuppbót kr. 60.000.
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026 verði orlofsuppbót kr. 62.000.
- Á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2027 verði orlofsuppbót kr. 64.000.
-
Frá og með 1. maí 2024 verður orlofsréttur sem segir (vegna orlofs sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2025):
- Starfsmaður sem starfað hefur í 6 mánuði hjá sama fyrirtæki og náð hefur 22 ára aldri eða í 6 mánuði hjá sama fyrirtæki eftir framhaldsskólapróf skal eiga rétt á orlofi í 25 daga.
- Eftir 5 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 25 daga orlof.
- Eftir 5 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 27 daga orlof.
- Eftir 7 ár í hjá sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 30 daga orlof.
- Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir tveggja ára starfa hjá nýju fyrirtæki.
Frá og með 1. maí 2025 verður orlofsréttur sem segir (vegna orlofs sem kemur til töku á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2026):
- Starfsmaður sem starfað hefur í 6 mánuði hjá sama fyrirtæki og náð hefur 22 ára aldri eða í 6 mánuði hjá sama fyrirtæki eftir framhaldsskólapróf skal eiga rétt á orlofi í 25 daga (óbreytt frá 2024).
- Eftir 5 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 26 daga orlof.
- Eftir 4 ár í sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein skal starfsmaður hafa 28 daga orlof.
- Eftir 6 ár í hjá sama fyrirtæki skal starfsmaður hafa 30 daga orlof.
- Áunninn réttur vegna starfa í sama fyrirtæki endurnýjast eftir tveggja ára starfa hjá nýju fyrirtæki (óbreytt frá 2024).
-
- Til viðbótar við almennar launahækkanir, hækkun desember- og orlofsuppbóta, og útvíkun orlofsréttar, var samið um framleiðniauka og kauptaxtauka.
- Framleiðniauki er viðbótarhækkun launa sem kemur til greiðslu á samningstímanum, ef framleiðni eykst umfram 2% á árunum 2025 og 2026. Þetta tryggir launafólki hlutdeild í verðmætaaukningu.
- Launa- og forsendunefnd skal í mars 2025, 2026 og 2027 úrskurða um kauptaxtaauka, sýni launavísitala Hagstofu Íslands fyrir almennan vinnumarkað að laun hafi hækkað umfram hækkun lægstu kauptaxta. Kauptaxtaaukinn reiknast sem fullt hlutfall umframhækkunar þeirrar vísitölu samanborið við lægstu taxta.
- Komi samhliða til greiðslu framleiðniauki og kauptaxtaauki skulu lágmarkskauptaxtar taka þeim auka sem hærra er hverju sinni.
-
Sérstakur kafli um fjarvinnu er nú hluti af kjarasamningi sem skilgreinir betur hvað felst í slíku vinnufyrirkomulagi og kveður á um að gera skal skriflegt samkomulag um reglubundna fjarvinnu.
Fjarvinnusamkomulag skal m.a. kveða á um hvernig atvinnurekandi bætir eða greiðir beinan kostnað sem stafar af fjarvinnu og sér starfskrafti fyrir viðeigandi tæknilegri aðstoð.
-
Starfsfólk hefur nú rétt til þess að verja allt að 16 dagvinnustundum á ári til setu á fagtengdum námskeiðum, án skerðingar launa.
Starfsfólk sem lýkur fagnámi í verslun og þjónustu eða fær staðfesta færni með fagbréfi á nú rétt á að óska eftir endurskoðun á launum sínum og samsetningu þeirra.
-
Nú verður heimilt að kjósa þrjá trúnaðarmenn innan fyrirtækis ef fjöldi félagsfólks er meiri en 120 á sömu starfsstöð. Trúnaðarmenn fá einnig aukinn rétt til að sækja námskeið án skerðingar launa.
-
Til að styrkja markmið kjarasamninga skal sérstök launa- og forsendunefnd taka til starfa, skipuð fulltrúum SA og fulltrúum tilnefndum af samninganefndum þeirra aðildarfélaga ASÍ sem að sameiginlegum samningsforsendum standa.
Verkefni nefndarinnar er að fylgjast með framvindu þeirra þátta í efnahagslífinu sem áhrif geta haft á markmið samningsins, leggja formlegt mat á forsendur kjarasamningsins og eftir atvikum semja um viðbrögð við forsendubresti.
Komist launa- og forsendunefnd að þeirri niðurstöðu að forsendur samnings séu brostnar skal semja um viðbragð sem hefur jákvæð áhrif á framvindu þeirra markmiða sem samingsaðilar hafa sett sér um minni verðbólgu, verðbólguvæntingar, lækkun stýrivaxta og bættan hag launafólks og bætta samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.Náist ekki samkomulag um viðbrögð við forsendubresti hafa samningsaðilar rétt til þess að segja samningnum upp með eftirfarandi hætti:
- Vegna endurskoðunar í september 2025 skal tilkynna uppsögn samnings fyrir kl 16:00 þann 8. október 2025 og fellur samningurinn þá úr gildi þann 31. október 2025.
- Vegna endurskoðunar í september 2026 skal tilkynna uppsögn samnings fyrir kl 16:00 þann 8. október 2026 og fellur samningurinn þá úr gildi 31. október 2026.
-
Breyting var gerð á sérkjarasamningi milli VR/LÍV og SA vegna starfsfólks í apótekum sem kveður á um að í þeim apótekum þar sem krafist er sérstaks skófatnaðar við vinnu skal atvinnurekandi leggja fastráðnu starfsfólki til eitt par af skóm á ári.
Breyting var gerð á sérkjarasamningi milli VR/LÍV og SA vegna starfsfólks gestamóttöku sem kveður á um ferðir til og frá vinnustað á höfuðborgarsvæðinu greiðist af atvinnurekanda, á þeim tíma sem strætisvagnar ganga ekki. Sama regla gildir á öðrum þéttbýlisstöðum þar sem almenningsvagna ganga frá morgni til kvölds alla daga vikunnar. Greiðslan er 1.975 en fjárhæðin skal uppfæra á sama tíma og almennar launahækkanir samkvæmt undirvísitölu neysluverðs 07322 leigubifreiðar (227,1).
Sérkjarasamningur milli VR/LÍV og Icelandair/SA vegna starfsfólks í farþega- og hleðsluþjónustu á Keflavíkurflugvelli var til skoðunar og eins og kunnugt er var þess krafist að vaktafyrirkomulagi yrði breytt. Samið var um bókun að unnið yrði að breytingu á fyrirkomulaginu og skal þeirri vinnu vera lokið eigi síðar en 20. desember 2024.
-
Hér má finna launatöflur fyrir bæði samninga LÍV við FA og SA fyrir árin 2024 til 2027.
Sjá launatöflur LÍV og SA 2024 hér
Sjá launatöflur LÍV og SA 2025 hér
Sjá launatöflur LÍV og SA 2026 hér
Sjá launatöflur LÍV og SA 2027 hér
Birt með fyrirvara um villur
Stuðningur stjórnvalda vegna kjarasamninga
Ríkisstjórn Íslands hefur í tengslum við undirritun kjarasamninga kynnt aðgerðarpakka upp á 80 ma.kr. sem styður við markmið um aukinn kaupmátt launafólks. Sjá hér kynningu stjórnvalda.
Aðgerðir stjórnvalda kveða meðal annars á um:
-
- Hækkun barnabóta
- Hækkun húsnæðisbóta
- Vaxtastuðning
- Afturhald í hækkunum á opinberum gjaldskrám
- Hækkun hámarksgreiðslna í fæðingarorlofi um 50% fyrir 1. janúar 2026.
- Loforð um að vinna að því að brúa umönnunarbilið.
- Gjaldfrjálsar skólamáltíðir
- Byggingu 4000 íbúða á samningstímanum með stofnframlögum og hlutdeildarlánum frá ríkinu.