Alþjóðasamstarf
LÍV hefur áratugum saman sinnt erlendu samstarfi. Mikilvægi erlends samstarfs eykst stöðugt, enda verslun og viðskipti í eðli sínu alþjóðleg. Sífellt fleiri fyrirtæki og störf virða engin landamæri og risa fyrirtæki virða að engu samfélagssáttmála um réttindi launafólks. Eina svar launafólks er að samræma starfsemi samtaka sinna auk þess sem stuðningur samtaka launafólks við þá félaga okkar sem ekki búa við skipulagða verkalýðshreyfingu skiptir miklu máli.
Við þetta bætist að með aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) gilda hér þær tilskipanir sem koma frá Evrópusambandinu og því skiptir miklu máli að LÍV fylgist vel með því sem gerist á vettvangi ESB í samvinnu við systur sambönd okkar á Norðurlöndunum.
Evrópusamtök verkalýðshreyfinga (ETUC), sem LÍV tengist í gegnum aðild sína að Alþýðusambandi Íslands, hafa beitt sér hart fyrir því að félags- og réttindamál launafólks, verði ekki sett skör lægra en samstarf á sviði viðskipta- og peningamála.
VR hefur tekið þátt í höfuðborgarsamstarfi verslunarmanna á Norðurlöndum
LÍV er aðili að:
-
LÍV er aðili að NHK - Nordiska Handelskommittén sem varð til við samruna Nordisk Samarbejdskomite og Nordisk Handel 2022, en LÍV gerðist aðili að NK árið 1960. En rekja má samstarf Norræna verslunarfélaga allt aftur til ársins 1918 og viðræður hófust um aðild íslenskra verslunarmanna árið 1938. Þær viðræður lögðust af við upphaf seinni heimstyrjaldar, en þráðurinn var tekinn upp að nýju við stofnun LÍV og LÍV gekk formlega í NK 1. febrúar 1960.
-
LÍV gerðist aðili að European Transport Workers Federation í júní 2024. ETF var stofnað á stofnþingi í Brussel 14.-15. júní 1999, sem byggði þá á 60 ára sögu stéttarfélaga í flutningum. Í dag er ETF málssvari yfir 5 milljóna launafólks í meira en 200 stéttarfélögum í 38 Evrópulöndum. Þetta launafólk starfar í öllum greinum flutninga, á landi, sjó og í lofti.
-
UNI Global Union, sem áður var nefnt Union Network International, eru alþjóðasamtök stéttarfélaga í hæfni- og þjónustugeirum, og í UNI Global Union eru bæði samtök einstakra landa, sem og alþjóðleg samtök stéttarfélaga. Innan UNI Global Union er aðildarfélög frá 150 löndum sem eru málsvarar 20 milljóna launafólks. Aðalstöðvar samtakanna eru í Nyon í Sviss.
Tengingar á vefi norrænna verslunarmanna
Danmörk - www.hk.dk
Svíþjóð - www.handels.se
Noregur - www.handelogkontor.no
Finnland - www.pam.fi
Sem hluti af heildarsamtökum launafólks á Íslandi, ASÍ, tengist LÍV mörgum mikilvægum alþjóðlegum samtökum og stofnunum. Þar má nefna ILO, Alþjóðavinnumálastofnunina, sem er elsta stofnun Sameinuðu þjóðanna; ETUC, Evrópusamtökum verkalýðshreyfinga, NFS, Norrænu verkalýðshreyfingunni og ICFTU, Alþjóðasambandi frjálsra verkalýðsfélaga sem berst fyrir mannréttindum og frelsi launafólks um heim allan.
European Transport Workers Federation
ETF var stofnað á stofnþingi í Brussel 14.-15. júní 1999, sem byggði þá á 60 ára sögu stéttarfélaga í flutningum. Í dag er ETF málssvari yfir 5 milljóna launafólks í meira en 200 stéttarfélögum í 38 Evrópulöndum. Þetta launafólk starfar í öllum greinum flutninga, á landi, sjó og í lofti. Þau starfa í eftirfarandi starfsgreinum:
- Flug
- Fiskveiðar
- Innri farvegur
- Vöruflutningar
- Sjóflutningar
- Hafnir og bryggjur
- Járnbrautir
- Vörubílaflutningar
- Ferðaþjónusta
- Almenningssamgöngur í þéttbýli
UNI Global Union
Á þingi FIET, alþjóðasamband verslunarmanna, árið 1999 var samþykkt að sameinast þremur öðrum alþjóðasamböndum og mynda nýtt alþjóðasamband - UNI, sem þá stóð fyrir Union Network International. Árið 2009 ákvað sambandið að breyta nafni þess í UNI Global Union. FIET, sem var stofnað 1904, var langstærst þessara sambanda og hafði þá 10 milljónir félagsmanna innan sinna vébanda.
Samböndin, sem það sameinaðist voru:
CI - Communications International (Alþjóðasamband starfsfólks við samskiptatækni), sem var stofnað 1911 og var með 4.5 milljónir félagsmanna.
IGF - International Graphical Federation (Alþjóðasamband starfsfólks við prentverk og grafíska hönnun), sem var stofnað 1896 og var með um 1 milljón félagsmanna.
MEI - Media and Entertainment International (Alþjóðasamband starfsfólks við fjölmiðlun og í skemmtanaiðnaðinum), sem var stofnað 1965 og var með 200.000 félagsmenn.
Union Network International (UNI)
Hið nýja samband, sem heitir Union Network International (UNI), tók til starfa í ársbyrjun árið 2000 og það er málsvari 15,5 milljónir félagsmanna í 900 landssamböndum/landsfélögum í 140 löndum.
Skrifstofur UNI eru í Nyon í nágrenni Genfar og þar hefur verið byggt nýtt hús yfir starfsemina. Byggingin hefur gengið nærri fjárhag sambandsins og hefur verið leitað eftir stuðningi frá aðildarsamböndunum.
UNI skiptist eftir landssvæðum (regions) í:
- UNI-Africa (Afríka)
- UNI-Americas (Norður og Suður Ameríka)
- UNI-Asia and Pacific (Asía og Kyrrahaf)
- UNI-Europa (Evrópa)
Það skiptist einnig eftir starfsgreinum í geira (sectors):
- UNI Commerce (verslunar) – stærsti geirinn með u.þ.b. 5 milljónir félagsmanna
- UNI Electricity (rafmagns)
- UNI Finance (fjármála)
- UNI Graphical (grafíska)
- UNI Hair & Beauty (hár og snyrti)
- UNI IBITS -Industry, business, services and IT (hvítflibbar í iðnaði, viðskiptum, þjónustu og upplýsinga- og tækniiðnaði
- UNI Media, Entertainment and Arts (fjölmiðlar, skemmtanaiðnaður og listir)
- UNI Postal (póstur)
- UNI Property Services (fasteignaþjónusta)
- UNI Social Insurance & Private Health Care (almannatryggingar og heilsugæsla á almennum markaði
- UNI Telecommunications (sími)
- UNI Tourism (ferðaþjónusta).
Auk þessa eru skipulagðir þrír hópar, sem ganga þvert á starfsgreinaskiptinguna en það eru (Interprofessional groups):
- UNI Women (konur)
- UNI Youth (ungliðar)
- UNI Professional & Managerial (sérfræðingar og stjórnunarstarfsfólk).