Kröfur VR og LÍV gagnvart atvinnurekendum 2013

Almennar áherslur og markmið

VR og LÍV leggja mikla áherslu á við gerð nýs kjarasamnings að skapaður verði grunnur að efnahagslegum stöðugleika og unnið verði markvisst að því að auka kaupmátt launafólks.

Lengd samningstíma

Það er afstaða VR og LÍV að heppilegra sé að semja til lengri tíma en það eykur líkur á árangri í baráttunni fyrir stöðugleika og auknum kaupmætti á vinnumarkaði. En þar sem óvissa ríkir í þróun efnahagsmála og hvað aðgerðir stjórnvalda í ríkisfjármálum varðar telja félögin rétt að skoða möguleika á stuttum kjarasamningi.

Starfsmenntamál

Aukin menntun og fræðsla eru grunnurinn að styrkari stöðu verslunar- og þjónustufólks og því vilja VR og LÍV leggja áherslu á starfsmenntamál í kjarasamningaviðræðum með það að markmiði að starfsmenntun sem í boði er sé markviss, í takt við þarfir atvinnulífsins og metin til launa.

Laun

 • Laun taki almennum hækkunum og kaupmáttur launa verði tryggður. Sértök áhersla verði lögð á millitekjuhópa og hækkun lægstu launa. Launakröfur verða nánar skilgreindar síðar.
 • Orlofsréttindi verði aukin, m.a. með það að markmiði að tryggja áunninn orlofsrétt enn frekar. Þá þarf að leysa ágreining sem verið hefur uppi varðandi ávinnslu orlofs eftir 5 ára starf hjá fyrirtæki.
 • Launagreiðslur í kjölfar vinnuslysa verði þær sömu og vegna veikinda þannig að föst og reglubundin laun verði greidd, eins og gert er í almennum veikindarétti.
 • Launagreiðslur á rauðum dögum verði settar inn í kjarasamning aðila með skýrari hætti en áður.
 • Hækkun desember- og orlofsuppbóta skv. almennum hækkunum.
 • Álag á nóttunni verði aukið í 50%, sbr. bókun í kjarasamningi frá árinu 2011.
 • Farið verði sérstaklega yfir launaþátt starfsmanna sem starfa í gestamóttökum hótela, apótekum og þeirra sem starfa í ferðaþjónustu.
 • Launagreiðendum verði gert skylt að boða starfsmenn til árlegs viðtals um starf og launakjör með sannanlegum hætti.

Vinnutími

 • Ferðatími vegna ferðalaga á vegum vinnuveitanda teljist til vinnutíma og greiðist samkvæmt því.

Atvinnuöryggi

 • Nefnd hefur verið starfandi varðandi öryggi og aðbúnað verslunarfólks. Vinna nefndarinnar er langt komin og hefur gengið vel. Lagt er til að niðurstöður hennar verði lagðar til grundvallar bókunar í kjarasamningi aðila með það að markmiði að bæta stöðu verslunarfólks.
 • Mikilvægt er að ræða sveigjanleg starfslok starfsmanna vegna aldurs með það að markmiði að tryggja góða framkvæmd í þessum málaflokki.

Lífeyrismál, tryggingar, veikindaréttur o.fl.

 • Launamenn séu að fullu slysatryggðir á ferðalögum erlendis í þágu vinnuveitanda, sbr. bókun frá árinu 2011.
 • Allur kostnaður vegna læknisvottorða og komugjalda verði greiddur af launagreiðanda, ef vinnuveitandi óskar eftir læknisvottorði vegna veikinda.
 • Veikindaréttur vegna barna verði útvíkkaður til að mæta veikindum maka og foreldra.
 • Veikindaréttur í orlofi erlendis verði færður til þess sem gildir í orlofi innanlands.
 • Unnin verði frekari endurskoðun á ákvæðum um tryggingar launþega.

Starfsmenntamál

 • Fulltrúar vinnumarkaðarins, í samstarfi við menntayfirvöld í landinu, sammælist um að ljúka vinnu við að skilgreina starfsmenntun fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum með námslokum sem verða metin til launa.
 • Í boði verði samfellt nám á framhaldsskólastigi fyrir starfsfólk í verslunar- og þjónustugreinum.
 • Áhersla verði lögð á að launafólk með stutta formlega menntun fái tækifæri til þess að fá reynslu sína metna í raunfærnimati.

Jafnréttismál

 • VR og LÍV krefjast þess að baráttan gegn kynbundnum launamun á vinnumarkaði verði hert en þar hefur VR verið í forystu á undanförnum árum. Jafnlaunavottun er stjórntæki sem VR hefur sett fram í því sambandi og hvetur atvinnurekendur til aukins samstarfs til að tryggja öllum á vinnumarkaði sömu laun fyrir sömu eða sambærilega vinnu.

Annað

 • „Pakkalaun“ verði nánar skilgreind og hvað í þeim felst, s.s. hvert er verðgildi dagvinnu, eftirvinnu og yfirvinnu hjá hverjum launþega. Auk þess þarf að tryggja að réttindi launþega skv. kjarasamningi geti ekki fallið undir pakkalaun nema með sérstöku samkomulagi milli VR/LÍV annarsvegar og SA hinsvegar.
 • Farið verði yfir réttarstöðu fólks sem er í hlutastörfum og/eða íhlaupastörfum.
 • Farið verði sérstaklega yfir réttarstöðu fólks sem vinnur á bakvöktum, bæði hvað varðar greiðslur og útköll.

 

Að öðru leyti er vísað til sameiginlegra krafna aðildarfélaga ASÍ.