Skýrsla stjórnar 1997-1999

Fjöldi karla og kvenni í félögum LÍV 1. janúar 1999
Félagar alls: Skattskyldir:
Félag Karlar Konur Samt. Karlar Konur Samt.
Vmf. Akraness 40 119 159 40 119 159
Vlf. Borgarness, deild 59 177 236 55 174 229
Vlf. Stykkishólms, deild 6 19 25 6 19 25
Vlf. Snæfellsbæjar 4 39 43 4 37 41
Vlf. Valur, deild 3 17 20 3 17 20
Vmf. Ísafjarðar 59 176 235 54 174 228
Vlf Hólmavíkur 4 19 23 2 18 20
Vlf. Hrútfirðinga 2 20 22 2 20 22
Vmf. V-Húnvetninga 12 20 32 12 19 32
Stéttarf. Samstaða, deild 24 43 67 20 39 59
Vmf. Skagfirðinga 56 138 194 54 137 191
Vlf. Vöku, deild 15 48 63 14 45 59
F.V.S.A. 469 914 1.383 409 822 1.231
Vmf. Húsavíkur 57 123 180 52 117 169
V.F.A. 97 324 421 86 312 398
Vlf. Jökull, deild 29 74 103 27 68 95
Vlf. Samherjar, deild 4 10 14 4 10 14
Vlf. Víkingur, deild 3 6 9 3 5 8*)
Vmf. Rangárvallasýslu 15 54 69 12 54 66
Vmf. Árnessýslu 87 358 445 87 358 445
Vmf. Vestmannaeyja 49 192 241 48 189 237
Vmf. Suðurnesja 221 568 789 202 517 719
Vmf. Hafnarfjarðar 320 657 977 302 630 932
V.R. 5.540 7.528 13.068 5.165 6.968 12.133
Samtals 7.175 11.643 18.818 6.663 10.868 17.531

*) Félagatal 1. janúar 1998

SKRIFSTOFAN

Skrifstofa LÍV er að Fákafeni 11, Reykjavík og er starfsmaður sambandsins Ástríður S. Valbjörnsdóttir. Formaður LÍV, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, er framkvæmdastjóri.

Starfsemi skrifstofunnar hefur verið með hefðbundnum hætti þetta kjörtímabil en frá maíbyrjun 1999 mun sú breyting verða á starfseminni að Kjaramáladeild VR tekur við túlkun kjarasamninga af skrifstofunni.

STJÓRNARFUNDIR

Á kjörtímabilinu, sem aðeins var eitt og hálft ár að þessu sinni, hafa verið haldnir 18 framkvæmdastjórnarfundir, 2 formannafundir og 2 formanna-og sambandsstjórnarfundir.

Tveir framkvæmdastjórnarmenn hurfu úr stjórn á tímabilinu. Böðvar Pétursson veiktist seinni hluta janúar 1999 og lést skömmu síðar og Hansína Á. Stefánsdóttir lét af störfum, sem formaður Verslunarmannafélags Árnessýslu, í október s.l. og hefur ekki starfað innan LÍV frá þeim tíma.

HEIMSÓKNIR TIL AÐILDARFÉLAGA

Formaður LÍV hefur heimsótt Verslunarmannafélag Suðurnesja, Verslunarmannafélag Árnessýslu, Verslunarmannafélag Austurlands, Félag verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri, Verslunarmannafélag Skagfirðinga og Verslunarmannafélag Akraness á kjörtímabilinu. Heimsóknirnar voru í tengslum við skipulagsferð ASÍ.

SKIPULAGSMÁL LÍV

Á síðasta þingi LÍV var kosin 3ja manna nefnd, sem hafði það verkefni að skilgreina tilgang, markmið og starfsemi sambandsins. Nefndin átti að skila tillögum til framkvæmdastjórnar fyrir 15. júní 1998, sem átti síðan að leggja fyrir formanna- og framkvæmdastjórnarfund eigi síðar en í byrjun október 1998.

Nefndina skipuðu Hansína Á. Stefánsdóttir, Guðmundur B. Ólafsson og Gunnar Páll Pálsson. Magnús Pálsson, rekstrarráðgjafi starfaði með nefndinni. Nefndin skilaði skýrslu þann 8. júní 1998 og er hún birt í heilu lagi hér aftast í skýrslunni.

Auk þeirra funda, sem gerð er grein fyrir í skýrslunni var haldinn formannafundur í húsnæði ASÍ þann 9. maí 1998 þar sem farið var yfir drög að skýrslunni. Framkvæmdastjórn fundaði þrisvar sinnum um skýrsluna, þar af einu sinni með nefndinni.

Í kjölfar þess fól hún 3ja manna undirbúningshópi að gera tillögur um 9. lið skýrslunnar "Skilgreiningu á hlutverki og framtíðarmarkmiðum LÍV og gerð starfsáætlunar, sem tekur mið af þeim" fyrir fund formanna og sambandsstjórnar LÍV, sem haldinn var þann 17. október 1998 í húsakynnum VR. Undirbúningshópinn skipuðu Gunnar Páll Pálsson, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og Jóhann Geirdal.

Undirbúningshópurinn sendi út bréf til þeirra verslunarmannafélaga, sem eru með opna skrifstofu meiri hluta dagsins, þar sem kannaður var vilji til samstarfs og hvernig félögin myndu vilja standa að þeim málum (sbr. 1. tölulið tillagnanna). Skrifleg svör bárust frá fimm aðildarfélögum.

Spurt var um eftirfarandi þætti:

 • samstarf um undirbúning og gerð kjarasamninga
 • samstarf um útgáfumál
 • lögfræðiaðstoð
 • skrifstofuaðstöðu LÍV
 • upplýsingar og túlkun kjarasamninga
 • erlend samskipti
 • fræðslumál.


Að teknu tilliti til þeirra svara sem bárust lagði undirbúningshópurinn eftirfarandi tillögur fyrir fund formanna og sambandsstjórnar LÍV þ. 17. október 1998:

Sambandsstjórnar- og formannafundur LÍV haldinn 17. október 1998 veiti framkvæmda-stjórn heimild til að ganga nú þegar til viðræðna við VR um eftirtalin atriði og fá reynslu á slíkt samstarf áður en lengra er haldið: 
Undirbúning næstu kjarasamninga, öflun hugmynda um áhersluatriði, fundi o.s.frv. 
Samstarf um útgáfu fréttablaða. 
Samstarf um aðra útgáfu. 
Að VR tæki að sér túlkun kjarasamninga. 
Í ljósi reynslu af ofangreindu samstarfi undirbúi framkvæmdastjórn tillögur um hlutverk, framtíðarmarkmið og starfs- og fjárhagsáætlun landssambandsins fyrir næsta þing LÍV, sem haldið verður 7.-9. maí 1999 á Akureyri. Þingið taki ákvarðanir um frekari breytingar á starfseminni og hvort frekari flutningur verði á verkefnum til aðildarfélaganna.

Framkvæmdastjórn undirbúi sérstakan fund um fræðslumál verslunarmanna. 
Í kjölfar viðræðna við VR um ofangreinda þætti verði sett niður starfsáætlun fyrir næsta ár, þar sem sett verður niður áætlun um fundi og aðra starfsemi. 
Til að stuðla að aukinni samvinnu aðildarfélaga LÍV og sameiningu þeirra er lagt til að teknar verði upp markvissar umræður um samstarf sjúkra- og orlofssjóða félaganna með það að markmiði að auka réttindi félagsmanna og stuðla að aukinni fjölbreytni, framþróun og hagkvæmni. Fyrir liggur yfirlit yfir sjúkrasjóði því sem næst allra aðildarfélaganna, eignir, tekjur, bótagreiðslur o.fl. Undirbúningshópurinn leggur til að óskað verði eftir því að eitthvert aðildarfélagið taki þetta verkefni upp á sína arma og byrjað verði á því eins fljótt og mögulegt er. 
Fundurinn samþykkti tillögurnar og að framkvæmdastjórn myndi fjalla frekar um málið og senda erindi til þeirra félaga, sem til greina komi að taka að sér verkefnin.

Í tillögum 3ja manna nefndarinnar og samþykktum fundarins felst að ekki er gert ráð fyrir að starfsemi sambandsins verði aukin eða skattur til sambandsins hækkaður. Gert er ráð fyrir lágmarksstarfsemi og að þau félög, sem óska eftir að fara í frekari sameiginleg verkefni, greiði þau sérstaklega. Verkefnin væri eigi að síður hægt að vinna sameigin-lega undir merkjum LÍV, ef samstaða er um það.

Framkvæmdastjórn ákvað síðan á fundi sínum 27. október s.l. að formaður og vara-formaður LÍV óskuðu eftir viðræðum við VR vegna þessa máls. Ennfremur að óskað yrði eftir því við VR að það tæki að sér verkefni vegna sjúkrasjóða aðildarfélaganna og við Verslunarmannafélag Húsavíkur að það tæki að sér verkefnið varðandi orlofssjóði félaganna.

Verslunarmannafélag Húsavíkur svaraði erindinu jákvætt en óskaði eftir frekari skýringum á því hvernig haga ætti verkefninu. Með tilliti til heildarlausnar var það geymt þar til búið væri að ganga frá samningi við VR og er nú í undirbúningi að ganga frá samkomulagi við Verslunarmannafélag Húsavíkur.

Í byrjun desember var búið að gera drög að samkomulagi milli VR og LÍV en það dróst að undirrita það af ýmsum ástæðum m.a. vegna málefna Félags ísl. símamanna. Eftirfarandi samkomulag var loks undirritað þann 28. apríl s.l. og er því nýkomið til framkvæmda:

Verzlunarmannafélag Reykjavíkur (VR) og Landssamband íslenskra verzlunarmanna (LÍV) gera með sér eftirfarandi

SAMKOMULAG

um samstarf um undirbúning og gerð væntanlegra kjarasamninga, samstarf um útgáfu fréttablaða og aðra útgáfu og samstarf sjúkrasjóða verslunarmannafélaganna:

1. KJARASAMNINGAR

a) Undirbúningur og öflun gagna:

Í framhaldi af launakönnun meðal félagsmanna, sem gerð var í febrúar sl., og Félagsvísindastofnun Háskólans er nú að vinna úr, verði bréf send til stjórna allra aðildarfélaga LÍV, þar sem óskað verður eftir hugmyndum um áherslu-atriði næstu kjarasamninga. 
Haldnir verði fundir á árinu 1999, sem öll aðildarfélög geta sent fulltrúa á, óski þau þess. 
Umræðuefni á fundunum verði m.a.:

 • Kynning niðurstöðu launakönnunar.
 • Væntingar og óskir félagsmanna til næstu kjarasamninga, samanber 1. lið hér að ofan.
 • Hugleiðingar um mótun kröfugerðar.
 • Mótun kröfugerðar:
 • Kröfugerð verði endanlega mótuð í ljósi niðurstöðu undirbúnings og upplýsingaöflunar.
 • Leitað verði eftir samstöðu um kröfugerð.

Túlkun kjarasamninga:

Kjaramáladeild VR mun veita aðstoð við túlkun kjarasamninga fyrir öll aðildarfélög LÍV eftir því sem þau óska. Félagsmönnum í verslunarmanna-félögum innan LÍV er einnig heimilt að leita persónulega til kjaramáladeildar VR varðandi túlkun kjarasamninga og geta félög, sem þess óska, bent félagsmönnum sínum á þá þjónustu VR. 
Þar sem óvíst er hvað mikið álag skapast vegna þessa á skrifstofu VR, verður ekki reiknað gjald fyrir þessa þjónustu fyrr en reynsla hefur fengist á umfangi hennar, samanber 3. lið. 
Kannað verði, m.a. með skráningu símtala í 12 mánuði, í hve miklu mæli þessi þjónusta er veitt. Þegar það liggur fyrir munu samningsaðilar ræða um hugsanlegt þjónustugjald. 
Óski félagsmaður annars félags eftir að máli hans verði fylgt frekar eftir af hálfu VR eða lögmanni þess, verður slík beiðni að koma fram af hálfu viðkomandi stéttarfélags. Greiða verður fyrir það sérstaklega samkvæmt nánara samkomulagi.

2. ÚTGÁFA

a) VR blaðið:

Kannaður verði kostnaður og möguleikar á eftirfarandi blaðaútgáfu:

Að gefa hluta af VR blaðinu út með annarri forsíðu og baksíðu, ásamt innsíðum þeirra, samtals 4 síður. 
Fjögurra síðna kálfur innan í VR blaðinu. 
VR blaðið með einni eða fleiri síðum helguðum viðkomandi félögum. 
Gert er ráð fyrir að allt efni komi frá viðkomandi félögum samkvæmt fyrirfram ákveðnu tímaplani. 
Skoðað verði hvort grundvöllur er fyrir útgáfu hjá minni félögunum með svipuðu formi og útgáfan á SKERPI.

b) Önnur útgáfa:

Kannað verði hvort hægt er að gefa út bæklinga um trúnaðarmenn o.fl., sem VR hefur gefið út, með merki viðkomandi félags.

3. SJÚKRASJÓÐIR

VR taki að sér að hafa forustu um markvissar umræður um samstarf sjúkrasjóða verslunarmannafélaganna, með það að markmiði að auka réttindi félagsmanna og stuðla að aukinni fjölbreytni, framþróun og hagkvæmni í rekstri sjóðanna. 
Byrjað verði á því að fá sérfræðing (tryggingafræðing eða annan sambærilegan) til að fara yfir alla þætti málsins, m.a. með tilliti til gagna, sem þegar liggja fyrir um stöðu sjúkrasjóðanna.

4. KOSTNAÐUR

Ekki er á þessu stigi hægt að meta kostnað af einstökum framangreindum þáttum, sem einstök félög þurfa að greiða. Það fer m.a. eftir því, í hve ríkum mæli þau munu vilja nýta sér framangreinda þjónustu og að hve miklu leyti þau vilja taka þátt í því starfi sem þessi samningur gerir ráð fyrir.

5. SAMNINGSTÍMI

Þessi samningur er gerður til eins árs til reynslu og fellur þá úr gildi sé hann ekki endurnýjaður.

Reykjavík, 28. apríl 1999
Verzlunarmannafélag Reykjavíkur
Magnús L. Sveinsson (undirritun)
Landssamband ísl. verzlunarmanna
Ingibjörg R. Guðmundsdóttir (undirritun)

Það er engin reynsla komin á þetta fyrirkomulag og ekki farið að vinna úr þeim atriðum, sem um ræðir. Vegna anna við undirbúning þingsins nú á síðustu viku hefur ekki verið mögulegt að kalla saman fundi vegna fyrirhugaðs samstarfs en það verður gert strax að loknu þingi.

STARFSGREINARÁÐ

LÍV á fulltrúa í tveimur starfsgreinaráðum. Ingibjörg R. Guðmundsdóttir er fulltrúi í starfsgreinaráði fyrir verslunar- og skrifstofufólk og er formaður þess. Varamaður er Gylfi Dalmann Aðalsteinsson. Stefanía Magnúsdóttir er fulltrúi LÍV í starfsgreinaráði vegna náttúrunýtingar.

FIET

Fundur um mannauðsstjórnun í Luxembourg:

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og Guðmundur B. Ólafsson sóttu fund á vegum FIET í Luxembourg þann 4. desember 1997. Guðmundur fór á vegum VR. Yfirskrift fundarins var "Svar stéttarfélaga við mannauðsstjórnun (Human Resource Management) í verslunar- og fjármálageiranum". Fyrir fundinum lá samantekt um mannauðsstjórnun í heiminum. Fyrri hlutinn fjallaði um mannauðsstjórnun frá sjónarhóli stéttarfélaga og seinni hlutinn um mannauðsstjórnun og stýringu á breytingum.

Fram kom að erfitt væri að lýsa mannauðsstjórnun og fólk skildi hana á mismunandi vegu. Það væri til "góð" mannauðsstjórnun, sem tæki tillit til starfsmanna og menntunar þeirra en einnig "slæm" mannauðsstjórnun, sem aðeins tæki tillit til atvinnurekstrarins. Ennfremur kom fram að mannauðsstjórnun væri notuð um allan heim en skiptist að mestu í þrjár aðferðir, sem væru töluvert ólíkar: þá evrópsku, þá japönsku, sem einnig tæki til einkalífs starfsmanna, og þá bandarísku, sem ættuð væri frá Harvard og fælist í því að sniðganga stéttarfélög.

Skiptar skoðanir voru á ágæti mannauðsstjórnunar og voru fulltrúar þeirra landa, sem hafa vinnulöggjöf, sem tryggir vel rétt starfsmanna, jákvæðastir. Danir voru t.d. mjög jákvæðir en Bretar mjög neikvæðir. Fram kom að mannauðsstjórnun gæti verið mjög góð fyrir starfsmenn, þar sem henni væri vel beitt, en vandinn væri að hún hljómaði mjög vel en henni væri oft beitt af mikilli hörku. Af umræðunni að dæma er ástandið líkast til verst innan bankakerfisins.

Niðurstaða fundarins var að þessi stjórnunaraðferð væri komin til að vera og það væri nauðsynlegt fyrir stéttarfélög að bregðast við henni með því að ná samningum við atvinnurekendur um aðkomu að samningum o.þ.h. og með því að upplýsa félagsmenn og aðstoða þá eftir því sem hægt er.

Þing Euro-FIET Commerce og þing Euro-FIET í Cardiff:

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, Magnús L. Sveinsson og Pétur A. Maack sóttu þing Euro-FIET Commerce, sem haldið var dagana 26.-28. mars 1998 og þing Euro-FIET, sem haldið var dagana 29.-31. mars 1998. Bæði þingin voru í Cardiff í Wales. Magnús og Pétur fóru á vegum VR.

Þingin voru mjög fróðleg og gagnleg. Euro-FIET Commerce er Evrópudeild verslunar-manna í FIET og var meginefni þingsins að undirbúa aðkomu hennar að þingi Euro-FIET, sem haldið var í kjölfarið. Á Euro-FIET þinginu var fjallað um ýmis mál en áhrif evrunnar á kjarabaráttuna og skipulagsvandi (fjölgun félagsmanna) stéttarfélaganna í álfunni voru aðal málin. Á vef LÍV er að finna ítarlegra efni frá þingunum.

Heimsþing FIET í Sydney:

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, Magnús L. Sveinsson og Guðmundur B. Ólafsson sátu þingið, sem haldið var dagana 14. til 18. mars 1999 í Sydney í Ástralíu. Magnús og Guðmundur fóru á vegum VR. Þingið var mjög áhugavert og gagnlegt. Sjónum var beint að stöðu launafólks í breyttum heimi alþjóðlegs efnahagskerfis og þess krafist að hagsmunir fólksins hefðu forgang.

Þá samþykkti FIET fyrir sitt leyti að sameinast þremur öðrum alþjóðasamtökum og mynda UNI, nýtt risavaxið alþjóðasamband stéttarfélaga starfsfólks í verslun og þjónustu, fjármálastofnunum, fjarskiptum, fjölmiðlum, samskiptum, prentverki og grafískri hönnun. Ítarlegar upplýsingar um þingið er að finna á vef LÍV.

NS (NORRÆNA SAMSTARFSNEFNDIN)

Árlegur fundur í Visby:

NS hélt árlegan fund sinn í Visby á Gotlandi 14. til 18. júní 1998. Ingibjörg R. Guðmundsdóttir sótti fundinn. Að venju voru gefnar skýrslur frá hverju landi fyrir sig, rædd afgreiðslutímamál, fyrirhugaðir fundir, samstöðuverkefnið í Bosníu, FIET o.fl. en aðalefni fundarins var framtíðarskipulag nefndarinnar.

Miklar umræður voru um málið m.a. um það hvernig nýta mætti nefndina til að efla sameiginlega aðkomu Norðurlandanna að Euro-FIET og samningum og verkefnum innan Evrópusambandsins. Ennfremur hvort opna ætti NS fyrir öðrum samtökum einkum verslunarmanna og hvort nefndin ætti aðeins að vera fyrir verslunarfólk eða eins og hún er fyrir bæði verslunar- og skrifstofufólk.

Ekki náðist niðurstaða á fundinum og var ákveðið að formaður og ritari ynnu frekar í málinu og boðað yrði til aukafundar í Helsinki í desember 1998. Þeim fundi var síðan frestað og hann haldinn í Stokkhólmi í janúar.

Ákveðið var að endurskoðendur NS, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og Sture Arntzen frá HK í Noregi, yrðu einnig endurskoðendur samstöðuverkefnis NS í Bosníu-Herzegóvínu.

Sú breyting var einnig samþykkt á fundinum að LÍV á nú fulltrúa í undirnefnd, sem saman stendur af formönnum aðildarsambandanna og ritara NS. Undirnefndin hittist árlega í janúarmánuði og undirbýr m.a. fundi samstarfsnefndarinnar. LÍV hefur ekki átt fulltrúa í þessari undirnefnd áður en á síðustu árum höfum við lagt mikla áherslu á fulla aðkomu okkar að starfi NS þrátt fyrir að LÍV sé mun minna en önnur sambönd í NS.

Fundir í Stokkhólmi:

Fundur undirnefndar NS var haldinn í Stokkhólmi 24. og 25. janúar 1999 og var aukafundur NS haldinn samhliða honum. Ingibjörg R. Guðmundsdóttir sótti fundinn. Þar var haldið áfram umræðum um skipulag NS og mögulega aðkomu annarra sambanda að nefndinni.

Skoðanir eru nokkuð skiptar og var ákveðið að bjóða að sinni aðeins sambandinu HTF í Svíþjóð aðild að nefndinni en halda síðan umræðum áfram á næsta ársfundi NS, sem haldinn verður í Danmörku í júní 1999.

Bosnía og Herzegóvína:

NS hefur tekið þátt í samstöðuverkefni í hinni stríðshrjáðu Bosníu–Herzegóvínu og hefur það skipt miklu máli fyrir stéttarfélögin þar. Verkefnið er unnið í samstarfi við FIET og einstök norræn sambönd launafólks og atvinnurekenda svo og opinbera aðila, sem eru þar með önnur samstöðuverkefni.

Megin áhersla verkefnisins er á að byggja stéttarfélögin upp að nýju og, það sem ekki er minna virði, að leiða saman fulltrúa félaga múslima og Serba og stuðla þannig að varanlegum friði.

Samkvæmt ákvörðun NS fóru Ingibjörg R. Guðmundsdóttir og Sture Arntzen til Sarajevo 8. til 13. janúar s.l. og endurskoðuðu reikninga verkefnisins. Allur kostnaður af ferðinni var greiddur af NS.

Ferðin var mjög fróðleg og er ljóst að LÍV getur verið mjög stolt af því að eiga þátt í þeirri uppbyggingu og því friðarstarfi, sem þarna fer fram. Eftir stendur spurningin hvort íslenskir verslunarmenn eigi eins og félagar okkar á Norðurlöndunum að koma á fót eigin verkefni í Bosníu-Herzegóvínu. Á vef LÍV er að finna mjög ítarlegt efni um verkefnið og annað því tengdu.

LÍV BLAÐIÐ

Gefin hafa verið út tvö blöð á kjörtímabilinu. Það fyrra í júní 1998 og var það sérstaklega ætlað ungu fólki. Í því voru upplýsingar og ábendingar um réttindi á vinnumarkaði og var blaðinu mjög vel tekið. Ljóst er að mikil þörf er fyrir slíka útgáfu einkum vegna sumarfólks. Seinna blaðið var gefið út í janúar 1999.

NETIÐ

Vefur LÍV var opnaður í júlí 1998 og er slóðin livis.is. Mikil vinna hefur verið lögð í hann og þar er að finna mikið magn upplýsinga og margar tengingar á aðra vefi. VR hafði þegar opnað öflugan vef en settar voru inn heimasíður fyrir önnur félög og hefur verið safnað upplýsingum um starfsemi félaganna eftir því sem hægt er.

Reynt verður að gera LÍV þinginu skil jafnóðum á vefnum og setja þar inn það helsta, sem er að gerast á hverjum tíma.

Í undirbúningi er að setja upp lokaðan vef, sem eingöngu er ætlaður aðildarfélögunum, stjórnarmönnum og öðrum þeim, sem fengju sérstakt lykilorð til að komast inn á hann. Á honum er mögulegt að vera með fréttir og upplýsingar, sem ekki eru ætlaðar til almennrar birtingar og gæti það nýst vel m.a. í kjarasamningum.

LÍFEYRISMÁL

Ný lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða:

Eitt stærsta mál síðasta LÍV þings voru fyrirhugaðar breytingar á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en því máli lauk farsællega með því að Alþingi setti ný lög í árslok 1997.

Eins og fram kom á síðasta þingi átti lagasetningin sér nokkurn aðdraganda en komið höfðu fram mjög umdeild frumvarpsdrög á meðan að kjarasamningar stóðu yfir 1997.

Eftir harðar deilur ákvað fjármálaráðherra að skipa nefnd, sem hafði það verkefni að fara yfir málið og freista þess að ná viðtækri sátt um ný lög. Deilur komu upp vegna skipan nefndarinnar, þar sem þá nýstofnuð samtök áhugafólks um séreignarsparnað fengu sérstakan fulltrúa en samtök lífeyrissjóðanna fengu engan. Nefndina skipuðu: Vilhjálmur Egilsson, alþingismaður og formaður nefndarinnar, Baldur Guðlaugsson, formaður samtaka um séreignarsparnað, Örn Gústafsson, viðskiptafræðingur, Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, Þórarinn V. Þórarinsson, framkvæmdastjóri VSÍ og Grétar Þorsteinsson, forseti ASÍ.

Af hálfu ASÍ var lögð mikil áhersla á að samstaða næðist milli aðila vinnumarkaðarins um lífeyrismálin og tókst það. Sú samstaða náðist einnig innan nefndar fjármála-ráðherra og skilaði nefndin tillögum sínum í lok október 1997, stuttu eftir síðasta LÍV þing.

ASÍ og VSÍ skiluðu síðan sameiginlegri umsögn um frumvarið og gerðu nokkrar athugasemdir. Frumvarpið var að lögum þ. 20. desember 1997 og hafði þá verið tekið tillit til flestra athugasemda ASÍ og VSÍ. Lögin tóku síðan gildi þ. 1. júlí 1998.

Fullkomin samstaða var innan ASÍ um málið og er ljóst að með henni og góðu samstarfi við samtök atvinnurekenda var komið í veg fyrir stórslys. Niðurstaða málsins er mikill sigur fyrir verkalýðshreyfinguna og sannar mikilvægi samstöðunnar.

Breytt réttindaávinnsla:

Samvinnusjóðurinn hefur breytt úr jafnri réttindaávinnslu í aldurstengda réttindaávinnslu og eru sömu hugmyndir uppi hjá Sameinaða lífeyrissjóðinum. Fjallað hefur verið um málið á vettvangi ASÍ og er almenn andstaða við þessa breytingu, ef frá eru taldir fulltrúar fyrrgreindra sjóða.

Með því að taka upp aldurstengda réttindaávinnslu er verið að falla frá þeirri sátt, sem ríkt hefur milli kynslóða og kynja í lífeyrissjóðakerfinu. Það kom mjög á óvart að stjórn VSÍ lýsti sig nýlega fylgjandi aldurstengdri réttindaávinnslu og er ekki ljóst hvernig samtökin hugsa sér að fylgja þeim áherslum eftir.

Ekki er vitað um fleiri lífeyrissjóði, sem hafa ákveðið að breyta í þessa veru og hefur m.a. stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna farið ítarlega yfir málið og ákveðið að halda áfram jafnri réttindaávinnslu, þar sem hún sé mun farsælli leið fyrir sjóðsfélaga.

SAMNINGAVIÐRÆÐUR UM GILDISTÖKU TILSKIPUNAR UM FORELDRAORLOFIÐ:

Á fundi formanna landssambanda innan ASÍ í maí 1998 var ákveðið að fela jafnréttis- og fjölskyldunefnd ASÍ að hefja viðræður við viðsemjendur um gildistöku tilskipunar ESB um foreldraorlof á grundvelli þeirrar stefnumörkunar um heildstætt réttindakerfi foreldra sem Alþýðusambandið hafði samþykkt. Viðræður hófust við Vinnuveitendasamband Íslands í september sl. og standa enn þegar þetta er skrifað. Þá hefur Vinnumála-sambandið einnig átt aðild að viðræðunum.

Í samningunum hefur ASÍ lagt áherslu á að forsenda þess að rétturinn til foreldraorlofs verði raunverulegur virkur réttur byggi á því að tryggðar verði greiðslur til foreldra í orlofinu. Hefur í því sambandi verið vísað til þeirrar grundvallarreglu að fjármagna eigi slíkt í gegnum samtrygginguna/trygginga- eða fæðingarorlofsgjald. Þá hefur, hvað varðar réttinn til töku foreldraorlofs, verið áréttuð sú afstaða að samið verði um fyrirkomulag sem feli í sér nægilegan sveigjanleika til að rétturinn nýtist foreldrum (og börnum þeirra) sem best.

Ljóst er að samningunum verður að ljúka á þessu ári því að fresturinn til að gildistaka tilskipunina rennur út í september n.k.

Samhliða viðræðum um samninga um foreldraorlof og til leyfis af óviðráðanlegum ástæðum, sem samkomulag hefur orðið um að verði formlega tveir samningar, er hafin sameiginleg skoðun ASÍ og VSÍ á uppbyggingu og kostnaði við núverandi réttindakerfi foreldra og hvað þær breytingar sem ASÍ hefur lagt til mundu þýða í þeim efnum.

SAMNINGAR UM MÆÐRASKOÐUN O.FL.

Réttur þungaðra kvenna til að fara í mæðraskoðun án skerðingar á föstum launum og réttindi þungaðra kvenna sem þurfa að leggja niður störf af öryggisástæðum er hluti af tilskipun ESB frá 19. október 1992 um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir eða hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti (92/85/EBE).

Á fundi formanna landssambanda innan ASÍ í byrjun árs 1998 var jafnréttis- og fjölskyldunefnd ASÍ falið að vinna að samningum við viðsemjendur um rétt til mæðra-skoðunar á launum í framhaldi af ósk félagsmálaráðuneytisins til aðila vinnumarkaðarins um að þeir gerðu samninga um þetta efni.

Alþýðusamband Íslands gekk frá samningum við alla viðsemjendur sína um framkvæmd þessara þátta tilskipunar 92/85/EB og eru þeir efnislaga samhljóða. Líta ber á samningana sem hluta af aðalkjarasamningum aðildarsambanda og félaga í ASÍ. Hér er um að ræða samninga við Vinnuveitendasamband Íslands, Vinnumálasambandið, fjármálaráðherra, Reykjavíkurborg og Launanefnd sveitarfélaga. Tók sá fyrsti gildi í febrúar og sá síðasti í apríl 1998. Samningarnir eru samhljóða ef frá er talin dagsetning gildistöku. Þá fylgdi þeim öllum bókun um atriði er varða gildistöku tilskipunarinnar að öðru leyti.

Hér á eftir er samningurinn við VSÍ birtur ásamt skýringum og meðfylgjandi bókun:

Samningur
milli
Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands
um rétt þungaðra kvenna til mæðraskoðunar

Samningur þessi er gerður til að hrinda í framkvæmd ákvæðum 9. gr og 1.tl.1. mgr. 11. gr. tilskipunar ESB frá 19. október 1992, um lögleiðingu ráðstafana til að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir eða hafa nýlega alið eða hafa börn á brjósti (92/85/EBE).

1. gr.

Barnshafandi konur eiga rétt til nauðsynlegra fjarvista frá vinnu vegna mæðraskoðunar án frádráttar á föstum launum þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.

(Með þessu ákvæði hefur réttur þungaðra kvenna til leyfis frá störfum til að fara í mæðraskoðun verið tryggður með kjarasamningum. Þá er einnig tryggður réttur þeirra til að halda föstum launum meðan þær eru frá vinnu vegna mæðraskoðunar, þurfi slík skoðun að fara fram í vinnutíma.)

2. gr.

Eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum til starfstíma við mat á rétti til aukins orlofs skv. kjarasamningum, útreikning desember- og orlofsuppbótar, starfsaldurshækkana, veikindaréttar og uppsagnarfrests. Sama gildir ef kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir.

(Hér er um að ræða tvær breytingar frá áður gildandi ákvæðum kjarasamninga.

1. Í fyrsta lagi er kveðið á um að eftir eins árs starf hjá sama vinnuveitanda teljast fjarvistir vegna fæðingarorlofs allt að 6 mánuðum til starfstíma við mat á rétti til aukins orlofs skv. kjarasamningum, útreikning desember- og orlofsuppbótar, starfsaldurs-hækkana, veikinda-réttar og uppsagnarfrests.

Sú breyting verður með þessu ákvæði að tíminn sem viðkomandi þarf að hafa verið í starfi hjá sama atvinnurekanda til að eiga samningsbundinn rétt á framangreindum réttindum styttist um helming, eða úr tveimur árum í eitt.

2. Með samningunum er nú tryggt að sami réttur gildir og hér að framan ef kona þarf af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma, sbr. reglugerð um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir.

Sú reglugerð sem hér er vísað til hefur verið gefin út af félagsmálaráðuneytinu. Um er að ræða reglugerð nr. 679/1998 um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Reglugerðin fjallar um skyldur atvinnurekenda til að meta aðstæður sem geta verið þess valdandi að konur þurfi að leggja niður störf af öryggisástæðum um lengri eða skemmri tíma á meðgöngutíma og hvernig bregðast eigi við í slíkum tilfellum.)

3. gr.

Samningur þessi gildir frá undirskriftardegi.

(Samningarnir voru undirritaðir sem hér segir:

Við Reykjavíkurborg, 27. febrúar 1998.

Við Samband Íslenskra sveitarfélaga, 27. febrúar 1998.

Við Vinnumálasambandið, 27. febrúar 1998.

Við Vinnuveitendasamband Íslands, 9. mars 1998.

Við fjármálaráðherra, 16. apríl 1998.)

Bókun

með samningi um mæðraskoðun og fleira

Samningsaðilar munu sameiginlega beina því til stjórnvalda að gerðar verði nauðsynlegar breytingar á lögum um almannatryggingar til uppfyllingar á ákvæðum 1. tl. 11. gr. tilskipunar ESB nr. 92/85 um bætur, þurfi kona af öryggisástæðum að leggja niður störf á meðgöngutíma.

Ágreiningur er milli ASÍ og stjórnvalda um gildistöku þessarar tilskipunar að hluta til en sambandið telur að þær ráðstafanir sem nú þegar hafa verið gerðar og þær sem eru yfirvofandi, feli ekki í sér fullnægjandi gildistöku tilskipunarinnar.

Í inngangi hennar er m.a. tekið fram að ,,Verndun öryggis og heilbrigðis starfsmanna sem eru þungaðir, hafa nýlega alið börn eða hafa börn á brjósti [megi] ekki leiða til þess að staða kvenna á vinnumarkaði versni, og [rýri] ekki réttindi í tilskipunum um jafnræði karla og kvenna." Jafnframt er tekið fram að ,, … ákvæði varðandi fæðingarorlof [hafi] enga þýðingu nema með þeim séu varðveitt réttindi sem tengjast ráðningarsamningi og/eða réttur til launa eða hæfilegra bóta." Þessi sjónarmið beri að hafa að leiðarljósi við gildistöku tilskipunarinnar.

Það er mat Alþýðusambandsins að sá hluti er snýr að vinnuverndarþætti tilskipunarinnar sem slíkum hafi verið lögleiddur með fullnægjandi hætti með reglugerð nr. 679/1998 um um ráðstafanir til þess að auka öryggi og heilbrigði á vinnustöðum fyrir starfsmenn sem eru þungaðir, hafa nýlega alið barn eða hafa barn á brjósti. Efni reglugerðarinnar var unnið í ágætu samráði við ASÍ. Hins vegar hefur ASÍ gagnrýnt harðlega þann hluta sem snýr að réttindum þeirra þunguðu starfsmanna sem þurfa að víkja tímabundið af vinnumarkaði að öryggisástæðum. Samkvæmt gildandi reglum almannatrygginga er hámark greiðslutíma fæðingarstyrks og dagpeninga 60 dagar fyrir barnsburð. Sá réttur, sem þungaður starfsmaður getur átt á grundvelli tilskipunar 92/85/EBE eða þeim reglugerðardrögum sem nú liggja fyrir, getur af augljósum ástæðum verið talsvert lengri. Ekki er heldur augljóst að sú fjárhæð sem réttur stofnast til, þó ekki sé nema á þessum 60 dögum, sé fullnægjandi. Fyrir Alþingi hafa ekki verið lögð frumvörp sem tryggt geta rétt til launa eða hæfilegra bóta.

Jafnframt hafa af hálfu stjórnvalda ekki verið gerðar ráðstafanir til að tryggja starfsmönnum rökstuðning fyrir uppsögnum svo sem áskilið er í 10. gr. tilskipunar 92/85/EBE. Þar er jafnframt tekið fram, að stjórnvöld skuli gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að verja starfsmenn fyrir afleiðingum ólögmætra uppsagna en það þýðir að starfsmenn skuli eiga að lágmarki rétt til skaðabóta sem tryggi þeim fullar skaðabætur. Það hefur ekki verið gert. Fullar skaðabætur geta tæpast orðið lágmarksfjárhæð skv. almannatryggingalögum heldur full og óskert laun allan þann tíma sem tilskipunin og reglugerðardrögin mæla fyrir um.

Uppi er einnig verulegur vafi um hvort ákvæði laga og reglugerða um fæðingarorlof tryggi að öðru leyti varðveislu réttinda, sem tengjast ráðningarsamningi og/eða rétt til launa eða hæfilegra bóta. Eins og þeim málum er nú skipað eru og veruleg líkindi til þess að þau tryggi ekki að staða kvenna á vinnumarkaði versni ekki vegna þungunar.

Með vísan til þessara athugasemda var fyrst skorað á ríkisstjórn Íslands með bréfi frá ASÍ dags. 12. október 1998 að sjá án tafar til þess að tilskipun 92/85/EBE verði fullgilt hér á landi með lögmætum og fullnægjandi hætti og óskað eftir svari fyrir 1. nóvember 1998 annars yrði málið formlega kært til Eftirlitsstofnunar EFTA. Ekkert svar barst þrátt fyrir ítrekanir og var málið kært í janúar sl.

EVRÓPSK SAMSTARFSRÁÐ (EUROPEAN WORK COUNCILS)

Í mars s.l. samþykkti Alþingi lög, sem gildistöku tilskipun ESB um evrópsk samstarfsráð hér á landi með fullnægjandi hætti. Með evrópskum samstarfsráðum er starfsmönnum fyrirtækja sem starfa á Evrópuvettvangi og uppfylla ákveðin skilyrði um stærð og starfsemi í tveim löndum eða fleiri, tryggður réttur til upplýsinga og samráðs um rekstur og framtíðaráætlanir fyrirtækisins.

Hér á landi hafa starfsmenn tveggja fyrirtækja þegar öðlast rétt til og taka þátt í starfsemi evrópskra samstarfsráða. Fyrirtækin eru Ísal og Glaxo-lyfjafyrirtækið. Þá er nú verið að kanna rétt starfsmanna tveggja annarra fyrirtækja í þessum efnum, en það eru Járnblendifélagið og Vífilfell, sem m.a. framleiðir og dreifir Coca Cola hér á landi.

SAMNINGAR UM HLUTASTÖRF

Með tilskipun 97/81/EB var samningur aðila vinnumarkaðarins á Evrópuvettvangi um rétt starfsmanna í hlutastörfum, sem ASÍ tók þátt í að gera, gerður bindandi í ESB. Tilskipunin hefur nú verið staðfest sem hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og ber að gildistaka efni hennar hér á landi á næstu misserum.

Tilskipuninni er ætlað að tryggja betur en nú er rétt starfsmanna í hlutastörfum varðandi allt það sem snýr að launum og réttindum á vinnumarkaði. Ekki er fullljóst hvaða áhrif gildistakan mun hafa hér á landi, en það er nú til skoðunar á vettvangi ASÍ.

SAMNINGUR UM TÍMABUNDNA RÁÐNINGASAMNINGA

14. janúar sl. náðust samningar á Evrópuvettvangi um beitingu tímabundinna ráðningar-samninga og réttarstöðu starfsmanna með slíka ráðningarsamninga. Af hálfu íslenskrar verkalýðshreyfingar tók ASÍ þátt í samningaviðræðum. Reikna má með því að tilskipun um efni samningsins verði samþykkt á vettvangi ESB síðar á þessu ári og að hún verði síðan lögtekin hér á landi á árinu 2001.

Með samningnum eru möguleikar atvinnurekenda til að beita tímabundnum ráðningar-samningum þrengdir verulega, auk þess sem áréttuð er sú meginregla að starfsmenn með tímabundna ráðningarsamninga skuli njóta sömu eða sambærilegra kjara og réttinda og fastráðnir starfsmenn.

VINNUTÍMAMÁL OG BREYTINGAR Á VINNUVERNDARLÖGUNUM

Að undanförnu hefur á vettvangi félagsmálaráðuneytisins verið unnið að breytingum á lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum með það að markmiði að fella meginreglur vinnutímasamninga aðila vinnumarkaðarins inn í lögin. Þessi vinna er unnin að kröfu ASÍ sem ávallt hefur bent á að vinnutímatilskipun ESB yrði ekki að fullu gildistekin hér á landi fyrr en meginreglurnar hefðu verið lögbundnar. Þá fyrst væru sköpuð nauðsynleg skilyrði til þess að fylgja samningunum eftir, bæði hvað varðar eftirlits- og leiðbeiningahlutverk stjórnvalda og refsigrundvöll gagnvart fyrirtækjum sem brjóta reglur samningsins.

Vonir standa til að lagafrumvarp um efnið verð lagt fram á komandi haustþingi. Frumvarpið hefur verið unnið í ágætu samstarfi við ASÍ. Það eru þó ákveðin atriði í þeim drögum að frumvarpi sem nú liggja fyrir sem verkalýðshreyfingin telur með öllu óásættanleg, en þau snúa fyrst og fremst að réttarstöðu flutningabílstjóra.