Þing 2002

23. þingi Landssambands íslenzkra verzlunarmanna lokið

Tuttugasta og þriðja þingi Landssambands íslenzkra verzlunarmanna var framhaldið á Akureyri, dagana 3.-4. maí 2002, en þingi sambandsins var frestað þann 27. október sl. Fyrir framhaldsþinginu lágu allmörg mál, en fyrirferðarmest var umfjöllun um tillögu framkvæmdastjórnar LÍV um breytingar á rekstri og starfsemi, auk lagabreytinga.

Talsverðar breytingar voru gerðar á lögum sambandsins. Framvegis verða haldin þing árlega, í stað annars hvers árs eins og áður. Fækkað var í stjórn úr 21 fulltrúa í 11. Helmingur stjórnarmanna skal kosinn á þingi ár hvert, nema formaður, sem er kosinn til tveggja ára. Í fyrsta sinn er helmingur stjórnar kosinn til tveggja ára.

Þingið samþykkti að gera umfangsmiklar breytingar á rekstri sambandsins. Í þeim felst m.a. að um sameiginlegan rekstur á ýmsum sviðum verður að ræða og nánara samstarf félaga en áður hefur verið. Megintilgangurinn með breytingunum, er að auka samvinnu og samstöðu aðildarfélaganna, fjölga samstarfsverkefnum, tryggja aukið samstarf við undirbúning og gerð kjarasamninga, styrkja þátttökuna í Alþýðusambandinu og í erlendu samstarfi og nýta betur starfsfólk og fjármuni. Valdssvið þings, framkvæmdastjórnar og aðildarfélaga haldast aftur á móti óbreytt.

Gert er ráð fyrir því að gerður verði samningur við Verzlunarmannafélag Reykjavíkur um rekstur, til ársloka 2004.

Á þinginu var samþykkt ályktun um kjara- og efnahagsmál, þar sem lýst er ánægju með þann árangur sem náðst hefur í verðlagsmálum og þætti ASÍ í aðgerðum gegn verðbólgu.

Þingið leggur áherslu á að forsenda þess að kaupmáttur launafólks verði tryggður, er að gætt verði áframhaldandi aðhalds í verðlagsmálum, verðbólgu verði haldið í skefjun og að vextir verði lækkaðir enn frekar.

Ingibjörg R. Guðmundsdóttir var endurkjörin formaður sambandsins til næstu tveggja ára. Aðalmenn í framkvæmdastjórn til tveggja ára voru kjörin þau Gunnar Páll Pálsson, Úlfhildur Rögnvaldsdóttir, Benedikt Vilhjálmsson, Kristín M. Björnsdóttir og Sólveig Haraldsdóttir. Til eins árs voru kjörin þau Valur M. Valtýsson, Guðrún Erlingsdóttir, Grétar Hannesson, Guðbrandur Einarsson og Guðmundur B. Ólafsson. Eftirtalin voru kjörin varamenn til eins árs: Gunnar Kristmundsson, Júnía Þorkelsdóttir, Stefanía Magnúsdóttir, Finnur Magnússon, Edda Kjartansdóttir, Hjörtur Geirmundsson, Páll H. Jónsson, Ágúst Óskarsson, Gunnar Böðvarsson og Bjarndís Lárusdóttir.

Tengd skjöl: